Misheppnað flugskeytaskot Norður-Kóreu

15.04.2017 - 23:39
epa05909131 Military vehicles carrying missiles believed to be North Korean KN-08 Intercontinental Ballistic Missiles (ICMB) are paraded during the 'Day of the Sun' festival on Kim Il Sung Square in Pyongyang, North Korea, 15 April 2017. North
 Mynd: EPA
Flugskeytaskot norður-kóreska hersins í gærkvöld misheppnaðist. Þetta fullyrða varnarmálaráðuneyti Suður-Kóreu og Bandaríkjanna. Skjóta átti flugskeytinu frá æfingasvæði hersins, en bandaríska varnarmálaráðuneytið segir hana hafa sprungið nánast um leið og henni var skotið á loft.

Tilraunin var gerð þegar kominn er sunnudagsmorgunn í Kóreu, eða dagurinn eftir Dag sólarinnar þar sem fæðingarafmæli Kim Il-Sung er fagnað. Haldin var heljarmikil skrúðganga í tilefni dagsins þar sem nýjustu vopnin í vopnabúri norður-kóreska hersins voru sýnd. Þar á meðal voru langdræg flugskeyti og kafbátaskotflaugar. Suður-kóreska varnarmálaráðuneytið veit ekki hvers kyns flugskeytið var sem reynt var að skjóta nú í kvöld. 

Spennan á Kóreuskaga er nánast áþreifanleg þessa dagana. Hótanir ganga á víxl á milli Norður-Kóreu og Bandaríkjanna, og hafa bæði ríki hótað því að gera forvirkar árásir hvort á annað. AFP fréttastofan hefur eftir bandarískum embættismönnum að Donald Trump hafi verið gert kunnugt um tilraunina, sem og Mike Pence sem er á leiðinni til Suður-Kóreu.

Kjarnavopnatilraunir Norður-Kóreu hafa valdið ríkjum í kring áhyggjum. Stjórnvöld í Pyongyang segja að næsta tilraun sé klár þegar Kim Jong-Un, leiðtogi ríkisins, gefur leyfi. Þá eru í þróun langdræg flugskeyti sem geta borið kjarnaodda. Þau eiga að geta drifið í átt að meginlandi Bandaríkjanna. Erlendar leyniþjónustur telja að innan við tvö ár séu þar til Norður-Kórea býr yfir þess háttar vopnum.