Minnst 135 féllu í Deir ez-Zor í Sýrlandi

16.01.2016 - 23:32
epa05101574 People stand in the besieged town of Madaya, in the countryside of Damascus, Syria, 14 January 2016. Convoys of humanitarian supplies, the second in a week, were on their way to three besieged Syrian towns. Some 44 trucks will enter the rebel
Umsátursástand ríkir víða í Sýrlandi. Ýmist situr stjórnarherinn um bæi og borgir sem eru á valdi uppreisnarmanna, eða öfugt. Þessi mynd er frá bænum Madaya, sem stjórnarherinn situr um. Íbúar líða sáran skort á öllum nauðsynjum, vatni, mat og lyfjum.  Mynd: EPA
Minnst 135 féllu í árásum vígasveita Íslamska ríkisins á borgina Deir Ezzor í Sýrlandi í dag, samkvæmt heimildum Sýrlensku mannréttindavaktarinnar. Þar af voru 85 óbreyttir borgarar, en 50 hinna föllnu eru hermenn stjórnarhersins eða bardagasveita sem hliðhollar eru honum. Heimildamenn og fjölmiðlar tengdir Sýrlandsstjórn nefna mun hærri tölur.

Þannig hefur Reuters-fréttastofan eftir ónafngreindum heimildamanni að árásarmennirnir hefðu vegið 250 manns, þar á meðal stjórnarhermenn og fjölskyldur þeirra í árásum á tvö úthverfi borgarinnar.

Ríkisfréttastöðin SANA greindi frá því að hryðjuverkasveitirnar hefðu myrt hundruð óbreyttra borgara, og á sjónvarpsstöðinni Al-Mayadeen í Líbanon, sem er höll undir stjórn Assads Sýrlandsforseta, var fullyrt að 280 hefðu verið myrtir og 400 óbreyttir borgarar teknir í gíslingu. Engum sögum fer af mannfalli í röðum árásarmanna.

Fyrr í dag var því haldið fram að 75 stjórnarhermenn og bandamenn þeirra hefðu fallið í árásinni, en ekkert minnst á óbreytta borgara. Sýrlenska mannréttindavaktin reiðir sig á upplýsingar frá sjónarvottum og vitnum á vettvangi, og freistar þess jafnan að fá upplýsingar frá nokkrum ótengdum aðilum til að auka áreiðanleika þeirra. Samkvæmt þeirra heimildum eru um 60% borgarinnar nú á valdi Íslamska ríkisins, en borgarbúar eru ríflega 200.000 talsins.

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV