Minnisblað sent úr Gmail netfangi

14.11.2014 - 13:47
Mynd með færslu
Gísli Freyr Valdórsson, fyrrverandi aðstoðarmaður innanríkisráðherra, sendi fjölmiðlum minnisblað um hælisleitandann Tony Omos úr Gmail-netfangi sínu. Ríkissaksóknari hefur ekki ákveðið hvort dómi héraðsdóms verður áfrýjað.

Gísli Freyr játaði í vikunni að hafa lekið trúnaðargögnunum og var í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi. Ekki hefur verið upplýst fram að þessu hvernig hann kom gögnunum til fjölmiðla. Í ákæru á hendur honum var það ekki tilgreint og Gísli Freyr sagði í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér eftir að ákæran var gefin út, að rannsókn á hans persónulega netfangi hefði ekki leitt neitt í ljós.

Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari staðfestir við fréttastofu að Gísli Freyr hafi notað Gmail-netfang sitt til þess að koma trúnaðarupplýsingunum, með viðbótum sem hann gerði sjálfur, til fjölmiðla. Við rannsókn málsins hafði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu samband við bandarísku alríkislögregluna FBI, sem óskaði eftir upplýsingum frá Google, sem á Gmail. Þar fengust þau svör að eftir að búið er að eyða tölvupósti, séu hann aðeins geymdur í fimmtán daga á vefþjónum fyrirtækisins. Þess vegna fannst ekkert í pósthólfi Gísla Freys á sínum tíma.

Helgi Magnús segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort dómi héraðsdóms verður áfrýjað, en hann sagði eftir að dómur féll að það væri ólíklegt.