Minni ríkismokstur ef Þjóðvegur 1 yrði færður

29.02.2016 - 11:50
Kári Ólason, bæjarverkstjóri á Fljótsdalshéraði, ryður snjó af götum Egilsstaða.
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson  -  RÚV
Verði Þjóðvegur 1 skilgreindur þannig að hann liggi um svokallaða fjarðaleið í stað Breiðdalsheiði gæti kostnaður Breiðdalshrepps og Fljótsdalshéraðs við snjómokstur aukist. Á meðan Þjóðvegur 1 liggur um Breiðdalsheiði greiðir ríkið fyrir snjómokstur í Breiðdal og Skriðdal tvisvar í viku.

Vegna fjárskorts hefur Vegagerðin ekki mokað Þjóðveg 1 um Breiðdalsheiði á veturna og í staðinn hefur umferð verið beint um svokallaða fjarðaleið. Illa hefur gengið að koma ferðamönnum í skilning um að Þjóðvegur 1 sé ófær á veturna og aka þeir framhjá skiltum sem vara við lokunum. Þeir fara  gjarnan í fýluferðir að Breiðdalsheiði, bæði inn Skriðdal og Breiðdal og sumir lenda í vandræðum upp í ófærri heiðinni.

Ríkismokstur tvisvar í viku og einn helmingsmokstur

Um leið og vetrarmokstri var hætt á Breiðdalsheiði var dregið úr snjómokstri á Þjóðvegi 1 um Breiðdal og Skriðdal. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni tekur ríkið þátt snjómokstri þar þrisvar í viku. Tvisvar í viku greiðir ríkið alfarið moksturinn enda tilheyra leiðirnar Þjóðvegi 1 og einu sinni í viku greiðir ríkið helming á móti viðkomandi sveitarfélagi. Skriðdalur er á Fljótsdalshéraði en Breiðdalur er í Breiðdalshreppi.  

Hákon Hansson, oddviti Breiðdalshrepps, segir að hreppurinn muni ekki styðja flutning á Þjóðvegi 1 nema tryggt verði að vetrarþjónusta Vegagerðarinnar haldist óbreytt. „Annars þýðir þetta aukinn kostnað fyrir Breiðdalshrepp ef við þyrftum að fara að borga helming af snjómokstrinum þarna inn eftir,“ segir Hákon. Hann segir að þarna sé um að ræða um 13 kílómetra kafla frá Breiðdalsvík að Þorgrímsstöðum en skólabíll aki hluta leiðarinnar.

Það sama er upp í teningnum í Skriðdal en þar er skólaakstur á vegum Fljótsdalshéraðs.

 

Mynd með færslu
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV