Minni fjölgun ferðamanna en spáð var

22.06.2017 - 11:06
Mynd með færslu
Helsta ástæða metafgangs af vöru- og þjónustuviðskiptum hér á landi.  Mynd: RÚV
Ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað minna undanfarna 12 mánuði en spár sögðu til um. Skýr merki eru um samdrátt í neyslu ferðamanna og að þeir dvelji hér skemur.

Mestur munur var um jólahátíðina þegar því var spáð að ferðamenn yrðu tvöfalt fleiri en árið áður en raunfjölgun var um 75%. Þetta kemur fram í samantekt greiningardeildar Arion banka um utanríkisverslun á Íslandi.

Þar kemur einnig fram að skýr merki séu um samdrátt í neyslu erlendra ferðamanna og breytt neyslumynstur. Mikill samdráttur sé í annarri verslun en dagvöru. Þjónusta svo sem menning og afþreying, veitinga- og gistiþjónusta hefur dregist saman. Eini útgjaldaliðurinn sem hefur vaxið er farþegaflutningar á sjó.

Í samantektinni segir að minnkandi neysla ferðamanna ætti ekki að koma á óvart miðað við hversu dýrt Ísland sé orðið fyrir þá. Greiningardeildin áætlar að Íslandsferðin sé nú með öllu rúmlega helmingi dýrari en árið 2012 ef miðað sé við gengisvísitölu, verðlag í krónum og neyslumynstur ferðamanna.

Mest er hækkunin í farþegaflutningum á landi, veitingahúsum og gistingu. Þessir þættir eru rúmlega 80% dýrari í erlendri mynt nú en fyrir fimm árum. Eini hluti ferðalagsins sem er lægri nú í erlendri mynt eru flugfargjöld. 

Þá segir greiningardeildin að sterkar vísbendingar um að hver ferðamaður dvelji hér skemur hafi komið fram í fyrra. Sú þróun hafi haldið áfram ef miðað sé við gistinætur á hótelum. Meðalnýting hótelherbergja í janúar til apríl er samt sem áður að aukast í öllum landshlutum, mest þó á Suðurnesjum og Suðurlandi.

Mynd með færslu
 Mynd: Arion banki
Mynd úr samantekt greiningardeildar Arion sem sýnir fjölgun ferðamanna (svarta línan) miðað við spár Isavia (bláa línan) á síðustu 12 mánuðum.