Minnast manns sem svipti sig lífi á geðdeild

13.08.2017 - 19:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hreiðar Þór Björnsson  -  RÚV
Ungur karlmaður fyrirfór sér á geðdeild skömmu eftir að hann var fluttur þangað í sjálfsvígshættu. Vinir og ættingjar ætla að minnast hans í kvöld. 

Lýst var eftir manninum í fjölmiðlum rétt eftir miðnætti aðfararnótt síðast liðins fimmtudags. Umfangsmikil leit að honum hafði þá staðið yfir um kvöldið í og við Kársnes og var þyrla Landhelgisgæslunnar meðal annars notuð til leitarinnar. Lögreglu hafði verið gerð grein fyrir því að hann hygðist stytta sér aldur. 

Snemma á fimmtudagsmorguninn kom svo fram í fjölmiðlum að hann væri fundinn heill á húfi. Innan við sólarhring síðar var hann allur. 

Það gerðist á geðdeild Landspítalans. Þangað var hann fluttur. Mun aðstandendum og vinum hans hafa orðið létt að hann væri komin í hendur heilbrigðisstarfsfólks. Hann mun hafa verið í um það bil hálfan sólarhring á geðdeildinni þegar starfsfólk kom að honum látnum. 

Þetta er ekki einsdæmi. Til dæmis fyrir nærri fimm árum svipti ungur maður sig lífi á geðdeild Sjúkrahússins á Akureyri. Hann var í sjálfsvígshættu og hafði verið vaktaður á deildinni samkvæmt því. Ströngu eftirliti hafði verið hætt örfáum dögum áður en hann fyrirfór sér. Þegar starfsfólk sjúkrahússins kom loks að honum hafði hann verið látinn í átta klukkustundir. Ættingjar mannsins hafa leitað til landlæknis vegna þessa. 

Vinir mannsins unga sem lést aðfararnótt síðast liðins föstudags hafa stofnað opinn viðburð á Facebook þar sem þeir sem þekktu hann eru hvattir til að koma á Rútstún í Kópavogi í kvöld með kerti og minnast hans á góðan hátt.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Hreiðar Þór Björnsson  -  RÚV
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV