Milos hættur hjá Víkingi

19.05.2017 - 18:24
Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Marian Kolodziejski  -  RÚV
Milos Milojevic er hættur sem aðalþjálfari Víkings Reykjavíkur en knattspyrnudeild Víkings sendi frá sér fréttatilkynningu nú síðdegis.

Milos kom til Víkings sem leikmaður árið 2010 og var síðar ráðinn aðstoðarþjálfari Ólafs Þórðarssonar árið 2013 áður en hann tók við keflinu af Ólafi árið 2015.

Í tilkynningu Víkings segir:

Samkomulag hefur orðið á milli Knattspyrnudeildar Víkings og Milos Milojevic að hann láti af störfum sem þjálfari Pepsi deildar liðs félagsins frá og með deginum í dag.

Ástæða starfslokanna er skoðanaágreiningur sem reyndist óyfirstíganlegur. Milos tók við sem aðalþjálfari sumarið 2015 af Ólafi Þórðarsyni en hann hefur unnið samfleytt hjá félaginu frá árinu 2009. Knattspyrnudeild Víkings þakkar honum samstarfið og óskar honum velfarnaðar en Milos á mikinn þátt í uppbyggingu félagsins síðustu ár. Dragan Kazic og Hajrudin Cardaklija munu stýra liðinu tímabundið.

Athyglisvert er að Víkingur og Breiðablik mætast í næstu umferð Pepsi-deildar karla á sunnudaginn en bæði lið eru þjálfaralaus. Arnar Grétarsson var látinn taka poka sinn hjá Kópavogsliðinu fyrir rétt rúmri viku en Sigurður Víðisson, aðstoðarþjálfari Blika, hefur stýrt liðinu í síðustu tveimur leikjum.

Mynd með færslu
Kristjana Arnarsdóttir
íþróttafréttamaður