Milljónir mótmæla í Brasilíu

14.03.2016 - 02:22
epa05210147 Protesters gather at the Paulista avenue in Sao Paulo, Brazil, on 13 March 2016, to demand the dismissal of Brazilian President Dilma Rousseff. The first demonstrations were reported in some cities in the north and northeast of the country
Frá Avenida Paulista í Sao Paulo síðdegis í gær, sunnudag.  Mynd: EPA  -  EFE
Milljónir manna fylltu stræti og torg yfir 400 borga og bæja í Brasilíu á sunnudag til að sýna óánægju sína með forseta landsins, Dilmu Rousseff, og víðtæka spillingu í stjórnkerfinu. Flestir voru mótmælendurnir í Sao Paulo, þar sem lögregluyfirvöld áætla að um 1.4 milljónir manna hafi safnast saman á breiðstrætinu Avenida Paulista síðdegis í gær, að staðartíma. Mótmælendum í þessari stærstu borg Brasilíu var svo mikið niðri fyrir að gangan fór af stað hálfum öðrum tíma á undan áætlun.

Mótmæli hafa stigmagnast

Háværar kröfur eru uppi um róttækar og skjótar breytingar í stjórn landsins, þar á meðal um afsögn forsetans. Brasilískir stjórnmálaskýrendur segja þolinmæði almennings fara ört minnkandi. Fjöldamótmæli gegn stjórninni, forsetanum og víðtækri spillingunni í stjórnkerfinu hafa verið tíð undanfarin misseri.

2013 kom ítrekað til óreglulegra og sjálfsprottinna mótmæla hér og þar, og óánægjan beindist helst gegn verðbólgu, óstjórn í efnahagsmálum og lélegri þjónustu hins opinbera á ýmsum sviðum, svo sem mennta- og heilbrigðismálum.

2015, ári eftir að Roussaff var endurkjörin, tók bæði mótmælunum og þátttakendum í þeim að fjölga, skipulagningin að aukast og línurnar að skerpast: Óánægjan fór að beinast í æ ríkari mæli að ríkisstjórninni og Verkamannaflokknum sem slíkum og spillingu í þeirra röðum. Verkamannaflokkurinn hefur verið við völd síðan 2002.

Þrálátur grunur um spillingu

Grunur leikur á að kosningabarátta forsetans 2014 hafi að hluta til verið fjármögnuð með mútufé, auk þess sem henni gengur illa að hrista af sér grun um aðild að mikilli spillingu, mútuþægni og fjármálasukki innan ríkisolíufélagsins Petrobras, þar sem hún var stjórnarformaður árum saman, á sama tíma og hún gegndi stöðu fjármálaráðherra.

Það gerir stöðu hennar svo enn erfiðari, að efnahagskreppan í landinu er ekkert á undanhaldi, þvert á móti fer hún dýpkandi. Rousseff hefur lýst því yfir að hún hafi alls ekki í hyggju að verða við kröfum fjöldans um afsögn. Þeim fer þó fækkandi sem hafa  trú á því að hún sitji út kjörtímabilið. Fari hún ekki sjálfviljug gæti farið svo að þing eða dómstólar knýi hana til afsagnar.

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV