Milljónir Jemena svelta vegna styrjaldar

17.02.2016 - 12:35
Erlent · Asía
On 30 July 2015, Hanadi, 2 years and 8 months old, and weighs a paltry 7 kilograms. She is malnourished, weak and can’t walk. She is admitted at Sabeen hospital in Yemen’s capital, Sana’a for treatment. Ali Hanadi Hussein is 2 years and 8 months old, and
Vannæring barna er alvarlegt vandamál í Jemen. Hanadi, sem er rúmlega tveggja og hálfs árs, vegur aðeins sjö kíló.  Mynd: © UNICEF/UNI191720/Yasin
Yfirmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum segir að neyðarástand ríki víða í Jemen, stór hluti þjóðarinnar þurfi á matvælaaðstoð að halda. Styrjöld hefur geisað í landinu í tæpt ár. Níu létust í sjálfsmorðsárás í hafnarborginni Aden í morgun.

Sádi-Arabía og fleiri arabaríki hafa frá því í mars í fyrra gert loftárásir á borgir og bæi í Jemen til að aðstoða stjórnarherinn við að brjóta al-Houthi-skæruliðahreyfinguna á bak aftur.

Hreyfingin er sögð njóta stuðnings Írana og klofningsbrots úr hernum sem fylgir fyrrverandi forseta Jemens að málum. Meira en sex þúsund hafa látið lífið frá því loftárásirnar hófust, helmingurinn almennir borgarar.

Fyrir ófriðinn var ástandið í þessu fátækasta ríki arabaheimsins afar viðkvæmt og það algerlega háð matarinnflutningi. Nú ríkir þar hörmuleg neyð, eins og kom fram í máli Stephens O'Brien, yfirmanns mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum, sem ávarpaði fund öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna í gærkvöld að beiðni Rússa.

O'Brien sagði að 2,7 milljónir Jemena hefðu orðið að flýja heimili sín og 7,6 milljónir byggju við alvarlegan matarskort. Þá yrði að koma tveimur milljónum barna og ófrískra kvenna til aðstoðar.

Hann gagnrýndi að stríðandi fylkingar hefðu hindrað aðgang mannúðarsamtaka, meðal annars hefðu Sádar snúið við skipi á vegum Sameinuðu þjóðanna sem var á leið til Jemens með hjálpargögn.

Í glundroðanum sem ríkir í landinu hafa hryðjuverkasamtök náð þar fótfestu, bæði Íslamska ríkið og al-Kaída. Níu létust í sjálfsmorðsárás sem gerð var við herstöð í hafnarborginni Aden í suðurhluta landsins í morgun. Enginn hefur lýst yfir ábyrgð en böndin berast að liðsmönnum al-Kaída.