Mikilvægt skref fyrir Vestnorræna ráðið

Vestnorræna ráðið hefur fengið áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu, sem er mikilvægt skref að sögn Unnar Brár Konráðsdóttur, fyrrverandi formanns Vestnorræna ráðsins. Hlýnun loftslags veldur örum breytingum og hvergi meira en á norðurslóðum. Unnur Brá telur að miklu skipti að raddir þeirra, sem búa á svæðinu og nálægt því, heyrist á alþjóðavettvangi. 

Færeyjar, Grænland og Ísland

Vestnorræna ráðið er samstarfsvettvangur þings og ríkisstjórna Færeyja, Grænlands og Íslands. Markmiðið með starfsemi ráðsins er meðal annars að vernda auðlindir og menningu landanna í Norður-Atlantshafi og efla samráð, einkum í mengunarvörnum og auðlindanýtingu. Unnur Brá Konráðsdóttir, sem var formaður Vestnorræna ráðsins frá 2013 til 2016, segir að áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu sé mikil viðurkenning fyrir starf Vestnorræna ráðsins á undanförnum árum. Það skipti máli að kjörnir fulltrúar fólksins sem býr á norðurslóðum séu við borðið þegar aðgerðir séu ákveðnar.

Hafa beitt sér mikið á alþjóðavettvangi

Unnur Brá segir að margir sækist eftir áheyrnaraðild að Norðurskautsráðinu. Vestnorræna ráðið hafi þurft að vanda mjög til verka þegar það sótti um aðild. Vestnorræna ráðið hafi beitt sér mikið á alþjóðavettvangi á undanförnum árum. Það hafi tekið þátt í ráðstefnum og fundum og lagt fram sín sjónarmið. Það hafi aflað sér stuðnings þingmanna í Færeyjum, á Grænlandi og Íslandi. Þjóðþingin hafi samþykkt stuðning við umsóknina og eftir það hafi ríkisstjórnirnar þrjár unnið ötullega að því að áheyrnaraðildin yrði samþykkt.

Ánægjulegt þegar pólitískt starf ber árangur

Unnur Brá segir að það sé sjaldgæft í pólitík að ná stórum málum í gegn og í hennar huga sé þetta sé ein af slíkum stórum stundum. Vegna smæðar verði Vestnorræna ráðið að einbeita sér að ákveðnum málum. Áhersla verði á þátttöku í starfshópi um sjálfbæra þróun.

Aukið mikilvægi Norðurskautsráðsins

Átta ríki á norðurslóðum eru í Norðurskautsráðinu, Arctic Council; Bandaríkin, Danmörk, Finnland, Ísland, Kanada, Noregur, Rússland og Svíþjóð. Tólf önnur ríki eru áheyrnarfulltrúar og nokkur samtök og ráð. Norðurskautsráðið er samstarfsvettvangur ríkisstjórna og á vettvangi þess hafa meðal annars verið gerðir samningar um samstarf í leitar- og björgunarmálum. Á síðasta ráðherrafundi Norðurskautsráðsins í Alaska í síðustu viku tóku Finnar við formennsku af Bandaríkjamönnum. Þá var staðfestur bindandi samningur um samstarf ríkjanna í vísindarannsóknum. Mikilvægi Norðurskautsráðsins hefur aukist á undanförnum árum og því hafa mörg ríki og samtök sóst eftir að fá áheyrnarfulltrúa. Það var því ekki hlaupið að því fyrir Vestnorræna ráðið að fá umsókn sína samþykkta.

Sérlega mikilvægt fyrir Grænlendinga

Þjóðréttarlegur munur er á stöðu landanna þriggja, Ísland er sjálfstætt og fullvalda ríki en Færeyjar og Grænland eru hluti dönsku ríkiseiningarinnar, Rigsfælledskabet. Grænlendingar ráða ekki eigin utanríkismálum og Danir hafa til dæmis ráðið stefnunni í norðurslóðamálum en með áheyrnaraðild Vestnorræna ráðsins að Norðurskautsráðinu komast Grænlendingar óbeint til meiri áhrifa. Unnur Brá segir að aðildin skipti Grænlendinga miklu máli og spyr hverjir séu betur fallnir til að sitja á fundum um norðurslóðamál en þeir. Hún segist ekki hafa fundið fyrir andstöðu Dana við umsókn Vestnorræna ráðsins. Grænlendingar hafi lagt mikla áherslu á að fá að vera sjálfir við borðið og hún voni og haldi að það sé skilningur á því hjá dönskum stjórnvöldum.

 

Mynd með færslu
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV
Spegillinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi