Mikilvægt að þjóðin fái að greiða atkvæði

24.02.2016 - 18:25
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ragnhildur Helgadóttir forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík segir mikilvægt að þjóðin fái að kjósa um mikilvægar þingsályktanir í þjóðaratkvæðagreiðslu, eins og opnað er á í tillögu stjórnarskrárnefndar, en ekki aðeins lög,

Nefndin leggur til að 15% kosningabærra manna geti krafist þess að nýsamþykkt lög verði borin undir þjóðina í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þar að auki leggur nefndin til að Alþingi verði heimilað að setja lög um að á sama hátt sé hægt að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um þingsályktanir sem hafa réttaráhrif eða fela í sér mikilvæga stefnumörkun. Ragnhildur Helgadóttir, forseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, talaði á málþingi um tillögur stjórnarskrárnefndar í Háskóla Íslands í dag. Hún segir þetta mikilvægt.

Það er mikilvægt vegna þess að það er farið að bera svolítið á því að þingsályktanir sem að hafa ekki lagagildi, og eru í raun og veru bara viljayfirlýsingar Alþingis, setji langtímastefnu og svo sé lagasetningu til dæmis hagað eftir þeim,segir Ragnhildur.  Besta dæmið um þetta er rammaáætlun. Þar er verið að taka mjög mikilvæga ákvörðun með þingsályktun, og það er þess vegna fínt að halda inni þeim möguleika, sem þarna er gert, að Alþingi geti sett lög sem kveði á um að þingsályktanir, sem hafa visst mikilvægi og snerta mikilvæga hagsmuni og almannahag, geti farið í þjóðaratkvæði.

 

Ragnhildur Thorlacius
Fréttastofa RÚV
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV