„Mikilvægt að muna eftir þeim sem misstu allt“

17.05.2017 - 17:29
Birgitta Jónsdóttir hélt þrumuræðu yfir Ólafi Ólafssyni og sagði að það væri mikilvægt að muna eftir þeim sem misstu allt en áttu þó lítið fyrir. Hugurinn ætti að vera hjá þeim í dag. Birgitta spurði hvort þetta „skuespil“ og hvort þessi farsi sem væri í kringum þetta mál allt, forsetamyndbandið til dæmis, væri undirbúningur fyrir mál hans fyrir Evrópudómstólnum.

Síðan spurði hún hvað honum fyndist um hugtakið víðfræga „löglegt en siðlaust“: „Hvað finnst þér um það og ef þér finnst skorta á um lög og skýrleika þá óska ég eftir því því þú ert eftir vill sá aðili sem ert best inni í því, hvar smugurnar eru? Vinsamlegast láttu okkur vita hvað er að svo við getum þá komið í veg fyrir bæði að stjórnvöld standi sig ekki í stykkinu og að hér viðgangist ekki löglegt en siðlaust siðferði gagnvart samfélagi okkar.“

„Nú er verið að bjóða þér upp í dans“

Sagði Lilja Alfreðsdóttir eftir ræðu Birgittu. Ólafur segist ekki vita hvaða dansspor eigi að stíga en að það sem skipti máli sé að allt sé uppi á borðum. Hvaða kröfur séu gerðar, hverjir mega kaupa og það að allir eigi sama rétt. Hann segir að stjórnmálin hafi stýrt bönkunum fram til ársins 2002 og ítök þeirra hafi verið miklu meiri en í dag. „En þetta vita allir,“ segir Birgitta og kvartar undan því að hún hafi ekki fengið neinar nýjar upplýsingar. „Þá biðst ég afsökunar á að hafa eytt tíma þínum í dag,“ svarar Ólafur.

Mynd með færslu
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV