Stefán Ragnar Höskuldsson er fyrsti flautuleikari hinnar virtu Chicago sinfóníuhljómsveitar í Bandaríkjunum. Hann leikur einleik í flautukonsert Jacques Ibert á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í kvöld, þar sem aðalhljómsveitarstjórinn, Yan Pascal Tortelier, stjórnar litríkri fransk-pólskri efnisskrá.

Flutti milli stórborga og menningarstofnana

Stefán Ragnar Höskuldsson er fæddur á Neskaupsstað árið 1975. Nýlega tók hann við stöðu fyrsta flautuleikara i Sinfóníuhljómsveitarinnar í Chicago en hann er jafnframt nafntogaður einleikari og kammermúsíkant á heimsvísu. Árum saman lék Stefán með hljómsveit Metrópólitan-óperunnar í New York en hann gegndi þar stöðu sólóflautuleikara á árunum 2008-2016. 

„Okkur líður mjög vel í Chicago,“ segir Stefán Ragnar. „Þetta er æðisleg borg og frábær hljómsveit. Það var súrsæt tilfinning að skilja við Metrópólitan-óperuna sem vinnustað. Þar leið mér mjög vel en það heillaði mig alltaf meira að vera í sinfóníuhljómsveit, á sviðinu en ekki niðri í gryfju til að leika með söngvurum. Nú er maður kominn í ákveðið hlutverk sem mann hefur alltaf dreymt um, að fá að njóta sín sem hljóðfæraleikari í hljómsveit.“

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons - RÚV samsett  -  Wikimedia Commons
Orchestra Hall í Chicago er sannarlega glæsilegur og sögufrægur staður.

Sögufræg stofnun

Rétt eins og óperuhúsið fræga á Sinfóníuhljómsveit Chicago sér langa og virðulega sögu. Hún var stofnuð árið 1891 og hefur á undanförnum áratugum þótt ein fremsta sinfóníuhljómsveit Bandaríkjanna og þar með heimsins alls. 

Listinn yfir aðalhljómsveitarstjóra sveitarinnar er glæsilegur. Ef horft er aftur til miðrar 20. aldar má nefna nöfn eins og Rafael Kubelík (1950–1953), Fritz Reiner (1953–1962), Sir Georg Solti (1969–1991) og Daniel Barenboim (1991-2006). Núverandi aðalhljómsveitarstjóri sveitarinnar er Ítalinn Riccardo Muti sem tók við stöðunni árið 2010. 

Stefán Ragnar segir það nokkuð ólíkt að spila í sinfóníuhljómsveit eða í óperuhljómsveit. „Flautan er alltaf efst á toppi og maður þarf að hugsa meira um heildarhljóm sinfóníuhljómsveitarinnar, að spila ekki of sterkt og passa sig að blanda tóninn. Í óperunni var maður að spila undir með söngvurum og þetta snérist meira um leikhús.“

Boðið að spila í prufu

Stórar og virtar sinfóníuhljómsveitir eru oft lengi að finna réttu tónlistarmennina og leit Chicago af fyrsta flautuleikara stóð lengi. Stefáni var boðið í eins konar undanúrslit.  

„Þetta er erfitt ferli að standa í,“ segir Stefán Ragnar, „en það er mikill heiður að vera valinn að lokum í svona æðislega hljómsveit sem maður hafði svona mikinn áhuga á að fá að vinna með.“

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons - RÚV samsett  -  Wikimedia Commons
Tónskáldin í kvöld: Charles Gounod, Jacques Ibert og Witold Lutoslawski.

Frönsk áhrif og krefjandi hljómsveitarkonsert

Á efnisskrá tónleikanna í kvöld eru þrjú verk: Sinfónía nr. 1 eftir Charles Gounod, flautukonsert Jacques Ibert og Konsert fyrir hljómsveit eftir hinn pólska Witold Lutoslawski. Það má því segja að áhersla hins franska aðalhljómsveitarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands Yan Pascal Tortelier, sé þó nokkur, auk þess sem hann hefur hampað hinum glæsilega konsert Pólverjans í gegnum árin.

Tónleikarnir hefjast kl. 19:30, allar upplýsingar um efnisskrá og miða er að finna hér. Tónleikarnir verða í beinni útsendingu á Rás 1 í kvöld og upphitunin hefst kl. 19. Upphitunina má  einnig heyra hér að ofan en umsjónarmaður og kynnir á tónleikunum er Guðni Tómasson, sem ræðir við Stefán Ragnar hér fyrir ofan og kynnir efnisskrána.