Mikið mannfall í blóðugum árásum ISIS í dag

28.02.2016 - 19:30
In this photo released on May 4, 2015, by a militant website, which has been verified and is consistent with other AP reporting, Islamic State militants pass by a convoy in Tel Abyad town, northeast Syria. In contrast to the failures of the Iraqi army, in
Liðsmenn Íslamska ríkisins.  Mynd: AP  -  Militant Website
Vígasveitir hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki sóttu hart fram gegn írakska stjórnarhernum í nágrenni Bagdad í dag. Tugir féllu í árásum þeirra bæði innan og utan höfuðborgarinnar.

 

Mannskæðasta árás dagsins var í úthverfi Bagdad þar sem sjía-múslimar eru í miklum meirihluta. Þar sprungu tvær sprengjur og að minnsta kosti sjötíu almennir borgarar fórust.

Stuttu áður höfðu vígasveitir íslamska ríkisins unnið landvinninga skammt frá höfuðborginni, meðal annars í Abu Ghraib sem er hluti af sama sveitarstjórnarsvæði. Þar stendur alræmt fangelsi þar sem bandarískir hermenn pyntuðu Íraka á sínum tíma. Vígasveitirnar handsömuðu þar hermenn og lögreglumenn og tóku þá í gíslingu, auk þess sem margir féllu í áhlaupinu. Stjórnarherinn hörfaði, vígamennirnir sóttu lengra fram og náðu einnig að leggja undir sig nærliggjandi bæi.

Á sama tíma voru harðir bardagar í nágrenni við borgina Fallujah, sem er aðeins 50 kílómetrum frá Bagdad. Að minnsta kosti átján lögreglumenn féllu og vígasveitirnar lögðu undir sig mikilvæga vatnsveitu.

Með þessum landvinningum hefur íslamska ríkinu tekist að stöðva þróun síðustu vikna, í það minnsta tímabundið. Samtökin hafa þurft að hörfa undan stjórnarhernum á nokkrum vígstöðvum og tapað miklu landsvæði í Anbar-héraði. Þau stjórna þó enn Mosul, sem er langstærsta borgin í Anbar. Svo virðist sem ætlunin sé að setja þrýsting á ríkisstjórnina með því að sækja að höfuðborginni, Bagdad.

 

Gunnar Hrafn Jónsson
Fréttastofa RÚV