Mikið álag á LHS – Ekki pláss á Landspítalanum

10.01.2016 - 13:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Álagið á Landspítalanum hefur undanfarið keyrt um þverbak, segir framkvæmdastjóri lækninga. Ástæðan er fjölgun eldri borgara og fólks með fjölþættan heilsubrest. Ekki er hægt að innrita sjúklinga á aðrar deildir af bráðamóttöku þar sem öll sjúkrarúm eru full.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði í pistli á föstudag að nýja árið hefði farið af stað með trukki og dýfu. „Jafnvel þó að við séum ýmsu vön í upphafi árs og gerum ráð fyrir miklum önnum þá hefur nánast keyrt um þverbak síðustu daga,“ skrifaði Páll.

Undir þetta tekur Ólafur Baldursson, framkvæmdastjóri lækninga á spítalanum. „Það er gríðarlega mikið álag og það hefur verið geysilega mikið að gera. Spítalinn er alltaf meira en 100 prósent nýttur og undanfarið hefur keyrt algjörlega um þverbak en með samstilltu átaki deildanna og starfsfólks og góðum stuðningi spítalann í kring hefur tekist að glíma við þetta. En þetta er áframhaldandi barátta,“ segir Ólafur.

Hann segir flensuna sem nú sé byrjuð að ganga ekki vera aðalástæðuna heldur hitt, og það hafi ítrekað komið fram, að öldruðum fari fjölgandi og þeim séu með margvíslegan heilsubrest. „Þetta fólk þarf á spítalanum að halda og það er að fjölga í þessum hópi undanfarin ár og það er þung undiralda.“

Ólafur segir að fjöldi sjúklinga hafi þurft að bíða eftir innlögn á bráðamóttöku allt of lengi þar sem ekki hefur verið pláss á spítalanum. „Sem er auðvitað mjög alvarlegt.“

Hann segir að verið sé að vinna í því að finna sjúkrarúm fyrir alla þá sem eru að bíða. „Það er passað upp á sjúklingana eins vel og mögulegt er og starfsfólkið að standa sig gríðarlega vel,“ segir Ólafur en eitthvað hefur verið um gangainnlagnir. 

 

Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV