„Mig langar að vera tekinn alvarlega“

Kvikmyndir
 · 
Síðdegisútvarpið
 · 
Menningarefni

„Mig langar að vera tekinn alvarlega“

Kvikmyndir
 · 
Síðdegisútvarpið
 · 
Menningarefni
Mynd með færslu
08.07.2017 - 14:34.Nína Richter.Síðdegisútvarpið
Leikarinn og skemmtikrafturinn Steinþór Hróar Steinþórsson er betur þekktur sem Steindi Jr. Hann hefur fest sig í sessi sem einn vinsælasti gamanleikari þjóðarinnar og komið víða við á rúmlega tíu ára löngum ferli. Hann hefur nú söðlað um úr gríninu yfir í sitt fyrsta dramatíska hlutverk í kvikmyndinni Undir trénu, undir leikstjórn Hafsteins Gunnars Sigurðssonar.

„Að mínu mati er hann langmest spennandi leikstjórinn akkúrat núna. Mér finnst hann alveg geggjaður, og æðislegt að vinna með honum,“ segir Steindi. Þrjú ár eru liðin síðan Hafsteinn Gunnar sendi frá sér París Norðursins sem tilnefnd var til ótal verðlauna. Fyrsta kvikmynd hans í fullri lengd Á annan veg, kom út árið 2011. Naut hún mikillar hylli innan lands sem utan, hlaut verðlaun víða og var í kjölfarið aðlöguð fyrir bandarískan markað undir heitinu Prince Avalance, þar sem bandaríski leikarinn Paul Rudd fór með annað aðalhlutverkið.

Fjármagn úr ýmsum áttum

 „Ég er náttúrulega að leika mitt fyrsta dramahlutverk í þessari mynd, og ég er með kvíðahnút í maganum yfir því. En þetta var hrikalega gaman,“ segir Steindi. Áætlaður kostnaður við myndina nam um 260 milljónum króna. Fjármögnun verkefnisins kom úr ýmsum áttum, en framleiðslan hlaut í fyrra styrk upp á 30 milljónir króna frá Evrópska kvikmyndasjóðnum Eurimages, en hafði að auki hlotið styrki frá Kvikmyndamiðstöð Íslands, Pólsku kvikmyndastofnuninni og Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðnum. Evrópskir dreifingaraðilar hafa þegar tryggt sér dreifingarréttinn á verkefninu og má þar nefna einn stærsta dreifingaraðila Frakklands, Bac Films. ScanBox hefur keypt dreifingarréttinn á Norðurlöndum.

Mynd með færslu
 Mynd: KVÍ  -  Vimeo
Hafsteinn Gunnar Sigurðsson, leikstjóri

Þegar venjulegt fólk missir tökin

Persónan sem Steindi leikur er að hans sögn mjög ólíkur honum. Sagan fjallar um það þegar ungur maður lendir í forræðisdeilu í framhaldi af því þegar kærasta hans og barnsmóðir kemur að honum að horfa á kynlífsmyndband af gamalli kærustu. „Og honum er sparkað út fyrir vikið, [...] og ég flyt heim til mín til foreldra minna, og það eru Siggi Sig og Edda Björgvins sem leika þau, og þau eru í nágrannadeilum út af tré sem er í garðinum hjá þeim,“ segir Steindi. „En þetta er í rauninni bara mynd um venjulegt fólk sem missir tökin. Í staðinn fyrir að setjast niður og ræða málin og fara vel yfir þetta og eitthvað svona, þá fer allt í háaloft.“

Í fyrsta skipti út fyrir grínið

Þetta er í fyrsta sinn sem Steindi fer út fyrir gamanleikinn og tekst á við alvarlegra verk. „Það var mjög spennandi, mig er búið að langa það svo lengi. Og svo þegar ég fékk handritið, - ég þurfti að fara í prufur, mjög margar prufur og þetta var langt ferli. Svo þegar ég fæ handritið og les það, ég man að ég var að fara lesa það og klukkan var svolítið margt. Ég ætlaði svona að tékka á því, kannski taka einn þriðja, og svo klára það á morgun, og ég gat ekki hætt að lesa það. Það var ekki hægt að hætta að lesa það, þetta var svo gott handrit og steinlá.“

„Feginn þegar þetta var búið“

„En þetta er auðvitað mikill munur, ég er búinn að vera að gera grín í mjög mörg ár og að fara í þetta er allt öðruvísi. Helsti munurinn er kannski af því að þetta er mjög langt tökuferli og ég hef aldrei farið á kaf í einhvern karakter. Og án þess að fara að vera hérna dramatískur og hálf-væminn eitthvað, en það lagðist þungt á mann. Það var kannski líka þetta helsta af því að hann [persónan] fékk ekki að sjá dóttur sína, og ég sá í rauninni ekki dóttur mína í ferlinu af því að hún var sofandi þegar ég fór út, og sofandi þegar ég kom heim, þannig að það var mjög erfitt. Ég var mjög feginn þegar þetta var búið.“

Tilfinningarússíbani

Aðspurður um tæki leikarans og aðgengi að leikþjálfun segist Steindi hafa horft inn á við og notað fortíðina sem efnivið. „Þú þarft náttúrulega að leita eitthvert, þannig að maður er að krukka í einhver gömul sár, maður er að krukka í einhverju sem þú varst kannski bara búinn að afgreiða , og opnandi hitt og þetta og það náttúrulega gerir þetta líka mjög erfitt. Þannig að þetta var í rauninni bara einhver tilfinningarússíbani hjá manni sjálfum í ferlinu, sem var ógeðslega gaman að prófa og upplifa og ég væri til í að gera það aftur.“ Steindi segir að mögulega sé myndin einskonar þroskaskref á ferlinum. „Ég er nú ekki alveg sami hálfvitinn og fólk heldur oft. En þetta er klárlega skref í rétta átt.“ 

 „Mig langar að vera tekinn alvarlega. En það má heldur ekki gera lítið úr gríninu, af því að það er erfitt. Það er ekkert grín að gera grín. En þetta er náttúrulega allt öðruvísi.“
Hann segist vilja gera mikið meira af því sama. „En við skulum bíða og sjá hvernig fólk tekur í myndina. Mig langar mikið að fara aðeins meira í þessa átt.“

Mynd með færslu
 Mynd: Netop Films  -  youtube
Steindi Jr. í hlutverki Atla í Undir trénu

Alveg eins og Geirfinnur

Steindi fer með aukahlutverk í heimildarmyndinni Out of Thin Air, sem fjallar um Guðmundar- og Geirfinnsmálin. Myndin er að hluta innlend framleiðsla, auk þess sem myndin fjallar um eitt stærsta mannhvarfsmál í sögu þjóðarinnar. „Þetta er heimildarmynd sem er um Geirfinnsmálið, og svoleiðis, og ég sá á Twitter einhverntíman að einhver [var] búinn að setja [inn] tvífaramynd af mér og Geirfinni. Og ég vissi ekki nákvæmlega hvernig hann leit út, en ég horfði á þetta og mér bara brá. Við erum bara alveg eins.“

Steindi segist í framhaldinu hafa sett myndina á sína Twitter síðu og bætt við í sama tísti að ef einhverntíman yrði framleidd mynd um Geirfinn, þá hlyti hann að fá hlutverkið.

„Ég held að það hafi verið kveikjan í þessu, svo fékk ég bara símtal. Ég er að leika þarna í myndskreytingum, þetta er svolítið í anda Jinx og Making a Murderer og þetta skotið mikið með víðum linsum og mikið úr fókus. Ég er ekkert viss um að fólk myndi spotta að þetta væri ég að leika, en við erum mjög líkir. Ég fékk símtal frá SagaFilm og fór í eina prufu og svo var kýlt á þetta, það er svolítið þannig.“

Langhlauparinn Steindi

Í útvarpsþættinum Sumarmorgnum á Rás 2 þann 28. júní sl. skoraði útvarpsmaðurinn Sólmundur Hólm á Steinda í hálfmaraþon, en áskorunin kom í kjölfar þess að Steindi hafði gert lítið úr 10 kílómetra vegalengdinni sem Sólmundur hugðist hlaupa. Steindi tók áskoruninni og auglýsti í kjölfarið eftir góðu málefni. Hann hleypur því fyrir Neistann, styrktarfélag hjartveikra barna, og hægt er að heita á hann hér.

„Ég er ekki mikill hlaupari, en það gengur fínt, ég æfi annanhvern dag. Ég er nýbyrjaður að æfa, ég er búinn að fara tvisvar út að hlaupa, og ég hljóp 7 kílómetra í bæði skiptin. Ég náttúrulega dey allur, ég var í hakki þegar ég kom heim.“ Steinda bauðst aðstoð utan úr bæ þegar sögur um fyrirætlanir hans komust á kreik. „Slökkviliðsstjórinn hringdi í mig og spurði hvort að ég vildi koma til þeirra, þeir ætla líka að hlaupa. [Spurði] hvort að ég væri til í að koma á æfingu með þeim og þeir ætluðu að setja mig í eitthvað þrekpróf og læknistékk.“ Steindi segist ætla að þiggja boðið og bætir við, „þetta er nú kannski ekkert hollt, að henda sér 21 kílómetra.“

Aðspurður um framhaldið segist Steini vera með mörg járn í eldinum. Hann sé meðal annars að skrifa næstu seríu af gamanþáttaröðinni Steypustöðinni, sem fer í tökur í október. Hann vill þó ekki láta mikið uppi.

„Ég þori ekki að segja neitt lengur, eftir þetta hlaup. Ég er alltaf að tala af mér.“

Steindi Jr. var föstudagsgestur Síðdegisútvarpsins á Rás 2 þann 7. júlí. Kvikmyndin Undir trénu verður frumsýnd 23. ágúst 2017.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Netflix þjófstartar íslenskri kvikmynd