Miðbæjarfantur áfram í gæsluvarðhaldi

17.02.2016 - 18:05
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  Já.is / 360 gráður
Karlmaður, sem grunaður er um að hafa reynt að nauðga tveimur konum með nokkurra mínútna millibili í desember síðast líðinn, hefur verið úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna frá því á Þorláksmessu en fram að því hafði hann setið í varðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna.

Maðurinn er ákærður fyrir að hafa ráðist á unga stúlku í Tjarnargötu í Reykjavík um klukkan þrjú aðfaranótt sunnudagsins 13. desember 2015. Hann hafi fylgt henni eftir og stöðvað för hennar með groddalegu ofbeldi og reynt að nauðga henni. Fólk kom að skömmu eftir að maðurinn réðist á stúlkuna og flýði hann þá af vettvangi.

Þá er hann ákærður fyrir að hafa, fimm mínútum eftir að lögregla fékk tilkynningu um árásina í Tjarnargötu, veitt stúlku eftirför frá Austurstræti og ráðist að henni við Þingholtsstræti, með miklu ofbeldi og reynt að nauðga henni. Ofbeldið hafi haldið áfram þar til bifreið kom akandi norður Þingholtsstræti en þá stökk maðurinn á flótta.

Lögregla birti myndir af manninum í fjölmiðlum 16. desember og barst fjöldi ábendinga þar á meðal frá sakborningnum sjálfum. Lögregla telur að upptökur úr öryggismyndavélum sem og föt sem fundust heima hjá manninum sýni fram á að hann sé sá sem réðist á stúlkurnar.

Málið var þingfest við héraðsdóm Reykjavíkur 10. febrúar og við þingfestinguna neitaði maðurinn sök. Aðalmeðferð fer fram 30. mars að því er fram kemur í gæsluvarðhaldsúrskurði héraðsdóms.

Þar segir enn fremur að sterkur grunur leiki á að maðurinn sé sekur um brotin sem hann er ákærður fyrir. Hann var því úrskurðaður í gæsluvarðhald til 14. mars. Þann úrskurð staðfesti Hæstiréttur í dag. Allt að sextán ára refsing liggur við brotum sem þessum.