Miðasala á Star Wars nemur 88 milljónum

04.01.2016 - 17:48
Nýjasta Stjörnustríðsmyndin, Star Wars: The Force Awakens, malar gull á Íslandi. Myndin hefur verið sýnd í þrjár vikur og samkvæmt síðustu tölum hafa 66 þúsund manns séð hana, miðasalan nemur 88 milljónum og rúmlega það. 21 þúsund sáu myndina síðustu sjö daga.

Þetta kemur fram í vikulegri úttekt frá FRÍSK - Félagi rétthafa á Íslandi sem heldur utan um aðsókn í kvikmyndahúsum. Stjörnustríð náði að verða vinsælasta kvikmyndin á Bretlandi á síðasta ári þrátt fyrir að hafa aðeins verið í sýningu í sextán daga. 

Stjörnustríðsmyndin hefur þegar slegið við nýjustu Bondmyndinni. Á þeim níu vikum sem liðnar eru frá frumsýningu Spectre hafa 53 þúsund séð leyniþjónustumann hennar hátignar að störfum.

Stjörnustríð á þó nokkuð í land með að skáka söngvamyndinni Mömmu Míu! - vinsælustu kvikmynd í sögu Íslands síðan farið var að taka saman aðsókn í kvikmyndahúsum með skipulögðum hætti. 

Þegar myndin, sem byggð er á lögum ABBA-söngflokksins, hafði verið sýnd í 11 vikur voru 106 þúsund búnir að sjá hana. Hún sló meðal annars tekjumet íslensku kvikmyndarinnar Mýrin.

Vinsælasta kvikmyndin í sögu Íslands er þó sem fyrr Með allt á hreinu eftir Stuðmenn. 120 þúsund sáu hana á sínum tíma - það fullyrða í það minnsta Stuðmenn sjálfir.

Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV