Miðaldamenningin það sem við erum bestir í!

06.01.2016 - 11:23
Þann 13. maí árið 2006, fyrir tæpum tíu árum frumsýndi Benedikt Erlingsson einleik sinn um Egil Skallagrímsson við opnun Landnámssetursins í Borgarnesi.

Einleikinn nefndi Benedikt Mr. Skallagrímsson og óhætt að segja að sýningin hafi slegið í gegn. Ári eftir hlaut Benedikt þrjár Grímu-tilnefningar fyrir sýninguna, og vann tvær Grímur fyrir besta handrit og besta leik í aðalhlutverki. Nú hefur Benedikt blásið nýju lífi í sýninguna í tilefni af því að upp er runnið 10. starfsár Landnámssetursins. Aðdáendur fornritanna hafa því er nú nokkru að moða þessa dagana, Njála er í Borgarleikhúsinu, Egla uppi í Borgarnesi. Benedikt Erlingsson heimsótti Víðsjá, ræddi um sýninguna, sem hann segir ekki hafa mikið breyst á tíu árum, ekki frekar en Egla sjálf. Hann ræddi um fornsögurnar, og sagði Íslendinga vera í úrvalsstöðu, ,,við búum hér við kjötkatlana, miðaldamenningin er eiginlega það sem við erum bestir í, við eigum hitaveitumenninguna og miðaldamenninguna, og við verðum alltaf bestir í miðaldamenningunni út af tungumálinu, við munum aldrei vinna handboltann eða fótboltann,  þar erum við erum alltaf miðlægir, þannig að við þurfum að gera meira en að grafa holu og láta hana fyllast af vatni.“   

Mynd með færslu
Eiríkur Guðmundsson
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi