MÍ í fyrsta sinn í sjónvarp

18.01.2016 - 22:18
Mynd með færslu
Lið Menntaskólans á Ísafirði eftir sigurinn á Fjölbrautaskóla Vesturlands.  Mynd: Rúv
Menntaskólinn við Hamrahlíð, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Menntaskólinn á Ísafirði og Kvennaskólinn í Reykjavík eru komin áfram í sjónvarpshluta Gettu betur eftir sigur í viðureignum sínum í kvöld þegar önnur umferð keppninnar fór fram á Rás 2. Þetta er í fyrsta sinn sem Ísfirðingar komast svo langt í keppninni en lið þeirra hafði betur gegn liði Fjölbrautaskóla Vesturlands í æsispennandi keppni, aðeins munaði einu stigi á liðunum þegar yfir lauk.

Liðin voru nokkuð jöfn að loknum hraðaspurningum en lið FVA leiddi með einu stigi. Að loknum fjórum bjölluspurningum er munurinn orðin 7 stig en þá er eins og lið MÍ hrökkvi í gírinn og siglir smám saman fram úr FVA. Eitt stig skilur liðin, MÍ í vil þegar komið er að hljóðspurningunni sem hvorugt liðið nær að svara. Leikar enduðu þvi þannig að MÍ sigraði lið FVA og er komið áfram í sjónvarpið í fyrsta sinn í sögu keppninnar. Önnur úrslit voru þau að ið MH sigraði lið Flensborgarskóla 32 - 15, lið FS hafði betur gegn Framhaldsskólanum á Laugum 20 - 13 og lið Kvennaskólans sigraði lið Fjölbrautaskólans í Breiðholti með 27 stigum gegn 15. 

Næstu keppnir eru á miðvikudag þegar lið MA mætir lið Verzlunarskólans, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ etur kappi við Menntaskólann á Laugavatni, lið Framhaldsskólans í Austur Skaftafellssýslu mætir lið Menntaskólans við Sund og lokaviðureign miðvikudagsins og annarrar umferðar verður á milli Menntaskólans í Reykjavík og Borgarholtsskóla. Útsending hefst á Rás 2 kl. 19.20.

Sjónvarpshluti keppninnar hefst föstudaginn 5.febrúar nk.

Elín Sveinsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Gettu betur
Gettu betur á Rás 2