Metfjöldi umsókna hjá NASA

20.02.2016 - 06:23
This photo taken from video provided by NASA shows astronaut Scott Kelly, center, help gather equipment for U.S. astronaut Tim Kopra, left, and British astronaut Tim Peake, as they prepare for a space walk at the International Space Station on Friday, Jan
Geimfarar um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni.  Mynd: AP  -  NASA
18.300 umsóknir um starf geimfara bárust bandarísku geimvísindastofnuninni NASA, en stefnt er að því að ráða nýja geimfara á næsta ári. Þetta eru nærri þrefalt fleiri umsóknir en bárust fyrir síðustu nýliðun árið 2012, og langt yfir metárinu 1978 þegar 8.000 sóttu um.

Fjöldinn kemur Charlie Bolden, stjórnanda NASA, ekkert á óvart. Fjölmargir hafi áhuga á því að taka beinan þátt í því að koma mönnuðu geimfari til Mars.
Að sögn AFP fréttastofunnar fer sérstök valnefnd yfir umsóknirnar næsta eitt og hálfa árið. Aðeins þeir allra hæfustu verða svo boðaðir í viðtöl í Johnson geimferðamiðstöðina í Houston. Af þeim verða aðeins átta til fjórtán útvaldir. 

Meðal þess sem hinir útvöldu þurfa að læra er geimganga, samvinna og grunnur í rússnesku. Þeir sem komast í gegnum æfingarnar fá vinnu við tækniaðstoð á skrifstofum Johnson geimferðamiðstöðvarinnar. Þeir fá svo að fara í Alþjóða geimstöðina, Orion geimflaugina, eða aðra tveggja geimflauga sem annars vegar SpaceX er að framleiða og hins vegar Boeing.

Flugmenn, verkfræðingar og aðrir vísindamenn voru sérstaklega hvattir til að sækja um. Umsækjendur urðu að hafa bandarískan ríkisborgararétt og búnir með BS-gráðu í verkfræði, raunvísindum, tölvunarfræði eða stærðfræði auk þriggja ára starfsreynslu í greinunum eða 1.000 flugtíma í þotu. Þeir verða að hafa líkamlega burði til þess að ná þrekprófi NASA. Bolden segir örfáa einstaklega hæfileikaríka menn og konur verða valda til þess að vera skotið upp í geim í bandarískri geimflaug.

 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV