Metfjöldi erlendra ferðamanna í janúar

12.02.2016 - 04:16
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Um 77.500 erlendir ferðamenn fóru frá landinu í gegnum Flugstöð Leifs Eiríkssonar í janúar, samkvæmt tölum Ferðamálastofu, og hafa aldrei verið fleiri. Þeim fjölgaði um 14.800 frá því sem var á sama tíma í fyrra, eða um 23,6%. Er þetta í takt við þróun undanfarinna ára, en meira en fjórfalt fleiri ferðamenn komu hingað til lands í janúar í ár en í janúar 2010.

Talning Ferðamálastofu leiðir í ljós að yfir helmingur ferðafólksins kemur frá tveimur löndum, og ríflega þrír fjórðu hlutar frá tíu löndum. Bretar eru langfjölmennastir í hópi erlendra gesta hér, eða 35,5% heildarfjöldans, en Bandaríkjamenn næstfjölmennastir (18,6%).

Langt er í næstu þjóðir. Kínverjar eru þriðji fjölmennasti ferðamannahópurinn (4.,3%), þá koma Þjóðverjar (4,2%), Frakkar (3.2%), Danir (2,7%) Norðmenn (2,5%), Japanir (2,3%), Svíar (2,2%) og Kanadamenn (2,0%).  

Bretum, Kínverjum og Bandaríkjamönnum fjölgar langmest milli ára, og raunar hefur fjöldi fólks frá Bretlandi og N-Ameríku, sem leggur leið sína hingað í janúarmánuði, ríflega sexfaldast á síðustu sex árum. Hlutfall þeirra af heildarfjöldanum hefur aukist að sama skapi, á kostnað annarra þjóða. Þannig voru Norðurlandabúar um fjórðungur allra ferðamanna sem hingað komu í janúar 2010, en nú eru þeir aðeins um 8%.

Ferðum Íslendinga til útlanda, í gegnum Leifsstöð, fjölgaði einnig töluvert milli ára, eða um 11.1%. Um 30.000 mörlandar flugu utan í janúar síðastliðnum, um 2.700 fleiri en í janúar 2015. 

Nánar má kynna sér þessar tölur á heimasíðu Ferðamálastofu.