Mestur vöxtur í rassastækkunum

29.02.2016 - 18:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fegrunaraðgerðir á rassi voru sú tegund lýtaaðgerða sem fjölgaði hlutfallslega mest í Bandaríkjunum milli áranna 2014 og 2015. Brjóstaaðgerðir eru eftir sem áður vinsælasta lýtaaðgerðirnar. Einnig á meðal karlmanna en þeim fjölgar ár frá ári sem fara í brjóstaminnkun.

Þetta er á meðal þess sem fram kemur í frétt Forbes en hún byggir á tölum frá samtökum lýtalækna í Bandaríkjunum.

Rassastækkun, þar sem sílikonpúðum er komið fyrir, og rassalyfting voru þær aðgerðir sem fjölgaði hlutfallslega mest milli ára eða um 36% hvor. Næst kom fitusog úr rassi sem jókst um 28%. Í þessum þremur flokkum voru framkvæmdar rúmlega 22.000 aðgerðir sem er mun minna en fjöldi aðgerða í vinsælustu flokkunum.

Útlitsdýrkun stórra rassa hefur verið áberandi í Bandaríkjunum um nokkurt skeið. Stjörnur á borð við Kim Kardashian, Amber Rose, Coco og mun fleiri byggja frama sinn að miklu leyti á gildum afturenda.

Brjóstastækkun er áfram vinsælasta aðgerðin en tæplega 280 þúsund slíkar voru framkvæmdar árið 2015. Fitusog kom næst eða rúmlega 220 þúsund aðgerðir, tæplega 220 þúsund nefaðgerðir voru framkvæmdar og um 200 þúsund aðgerðir á augnlokum. Þá var magaminnkun framkvæmd tæplega 130 þúsund sinnum.

Þá fjölgaði brjóstaminnkunaraðgerðum hjá körlum um 5% og voru um 27 þúsund talsins.

Af minniháttar fegrunaraðgerðum var bótox áfram á toppnum. Tæplega 7 milljón slíkra aðgerða voru framkvæmdar árið 2015.

Mynd með færslu
Ásgeir Jónsson
Fréttastofa RÚV