Messi sá besti í fimmta sinn

11.01.2016 - 19:26
Lionel Messi, leikmaður Barcelona, var í kvöld valinn besti leikmaður heims í fimmta sinn og fékk hinn eftirsótta Gullknött. Þessi 28 ára Argentínumaður hafði betur gegn Portúgalanum Cristiano Ronaldo og Neymar frá Brasilíu.

Messi er vel að Gullknettinum kominn. Hann skoraði 52 mörk og gaf 26 stoðsendingar á árinu 2015 en Messi lék 61 leik á árinu. Hann varð spænskur meistari með Barcelona auk þess að vinna Meistaradeildina og spænska bikarinn.

Messi og Ronaldo hafa einokað Gullknöttinn á undanförnum árum en þetta er áttunda árið í röð sem annar þeirra hreppir þessi eftirsóttu verðlaun. Leita þarf aftur til ársins 2007 til að sjá annað nafn á knettinum en það ár var það Brasilíumaðurinn Kaka sem hlaut nafnbótina besti leikmaður heims.

Hjá konum var það hin bandaríska Carli Lloyd sem hlaut nafnbótina besta knattspyrnukona heims. Lloyd skoraði þrennu í úrslitaleik Heimsmeistaramótsins þar sem Bandaríkjakonur fóru með sigur af hólmi.

Luis Enrique, knattspyrnustjóri Barcelona, var valinn karlþjálfari ársins og hafði þar betur gegn Pep Guardiola þjálfara Bayern Munich og Jorge Sampaoli þjálfara Síle. Jill Ellis var valin besti kvenþjálfarinn en hún stýrði liði Bandaríkjanna til sigur á HM á síðasta ári.

Handhafar Gullknattarins síðustu ár:
2015 - Lionel Messi
2014 - Cristiano Ronaldo
2013 - Cristiano Ronaldo
2012 - Lionel Messi
2011 - Lionel Messi
2010 - Lionel Messi
2009 - Lionel Messi
2008 - Cristiano Ronaldo
2007 - Kaka
2006 - Fabio Cannavaro
2005 - Ronaldinho
2004 - Ronaldinho
2003 - Zinedine Zidane

Wendell Lira, leikmaður Atletico Goianiense í Brasilíu, fékk Puskas verðlaunin fyrir mark ársins sem sjá má hér að neðan.

Mynd með færslu
Jón Júlíus Karlsson
íþróttafréttamaður