Messi fer í dómsal eftir tímabilið

21.01.2016 - 03:28
Erlent · Evrópa · Spánn
epa05097680 Argentina's Lionel Messi (R) is congratulated by Portugal's Cristiano Ronaldo after winning the FIFA Men's soccer player of the year 2015 prize during the FIFA Ballon d'Or awarding ceremony at the Kongresshaus in Zurich,
Lionel Messi var í kvöld valinn besti knattspyrnumaður heims í fimmta sinn.  Mynd: EPA  -  KEYSTONE
Besti knattspyrnumaður heims, Lionel Messi, þarf að mæta fyrir dómstóla á Spáni í lok maí á þessu ári. Það eru ekki hæfileikar hans á knattspyrnuvellinum sem þykja glæpsamlegir, heldur þarf hann að svara fyrir ríflega fjórar milljónir evra sem hann er grunaður um að hafa svikið undan skatti.

Hæstiréttur í Katalóníu ákvað í gær að skattamál Messi og föður hans verði tekið fyrir 31. maí, eftir að spænsku deildinni og Meistaradeild Evrópu lýkur. Þeim er gefið að sök að hafa ekki talið fram 4,16 milljónir evra vegna ímyndarsamninga, jafnvirði tæplega 590 milljóna króna, til skatts á árunum 2007 til 2009. Feðgarnir eru taldir hafa afsalað réttinum til fyrirtækja í Belís og Úrúgvæ til þess að þurfa ekki að telja þá fram á Spáni.

Saksóknarar vildu falla frá kærum gegn Messi þar sem faðir hans fer með öll hans fjármál, en dómari ákvað í október síðastliðnum að Messi hafi átt hlut í máli. Lögmenn skattstofunnar krefjast tæplega tveggja ára fangelsisvistar. Feðgarnir neita sök og segja við fyrrum fjármálaráðgjafa Messi að sakast.

Messi var kjörinn besti leikmaður heims árið 2015 fyrr í þessum mánuði.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV