Merkel vill taka hart á árásarmönnum í Köln

08.01.2016 - 03:35
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Angela Merkel segir að Þýskaland verði að endurskoða afstöðu sína varðandi að senda erlenda glæpamenn úr landi í kjölfar árásanna í Köln á gamlárskvöld. Senda verði þeim sem ekki vilji gangast við þýskum lögum skýr skilaboð.

Hópar karlmanna, sem sagðir voru vera af norður-afrísku eða arabísku bergi brotnir, réðust gegn konum á torgi í Köln á gamlárskvöld. Greint var frá svipuðum atvikum í fleiri þýskum borgum og einnig í Finnlandi og Sviss.

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, segir atvik af þessu tagi algjörlega óásættanlegt. Þetta séu árásir sem Þýskaland geti ekki samþykkt. Að konum þyki þær vera algjörlega varnarlausar sé eitthvað sem hún geti ekki umborið. „Þess vegna er mikilvægt að allt sem þarna gerðist verði uppi á borðinu," sagði Merkel í yfirlýsingu í gær. „Við verðum að fara aftur og aftur yfir það hvenær nauðsynlegt er að beita brottvísunum frá Þýskalandi, svo við sendum þeim sem vilja ekki framfylgja ekki okkar lögum skýr skilaboð."

Mega vísa hælisleitendum úr landi

Heiko Maas, dómsmálaráðherra, tók undir orð Merkel. Hann segir að ef árásarmennirnir reynist erlendir ríkisborgarar geti þeir átt yfir höfði sér brottvísun úr landi. Hann segir að þýsk lög veiti stjórnvöldum leyfi til þess að vísa hælisleitendum úr landi verði þeir dæmdir í árs fangelsi eða meira.

Lögreglan gagnrýnd

Skýrsla frá lögreglunni í Köln birtist í þýska fréttaritinu Der Spiegel í gær. Þar sagði að ástandið í miðborg Kölnar hafi verið hrikalegt. Lögreglumenn á vakt hafi átt við ofurefli að etja og ekkert ráðið við ástandið. Lögreglan hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir slæleg viðbrögð á gamlárskvöld.