Menningarviðurkenningar RÚV afhentar

Menningarefni
Mynd með færslu
 Mynd: Ísgerður Elfa Gunnarsdóttir

Menningarviðurkenningar RÚV afhentar

Menningarefni
Mynd með færslu
06.01.2017 - 16:00.Davíð Roach Gunnarsson
Rapparinn Emmsjé Gauti og rithöfundurinn Sölvi Björn Sigurðsson voru meðal þeirra sem hlutu Menningarviðurkenningar RÚV en þær voru afhentar kl 16 við hátíðlega athöfn í Útvarpshúsinu við Efstaleiti í dag. Þá var orðið „hrútskýring“ valið orð ársins.

Emmsjé Gauti hlaut Krókinn 2016 - viðurkenningu Rásar 2 fyrir framúrskarandi flutning á árinu. Emmsjé Gauti gaf út tvær breiðskífur og var án efa einn vinsælasti tónlistarmaður ársins. Hann kom fram á tónleikum um allt land þar sem útgáfutónleikar hans og tónleikar hans á Airwaves og Secret Solstice hátíðunum stóðu upp úr. Emmsjé Gauti er sviðsmaður af Guðs náð og á létt með að ná til tónleikagesta.

Sölvi Björn Sigurðsson hlaut viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins fyrir ritstörf en bók hans Blómið - saga um glæp, hefur hlotið feikna góðar viðtökur og lof gagnrýnanda. Bókmenntarýnir Víðsjár hafði þetta að segja um höfundinn: „Sölvi Björn Sigurðsson hefur sýnt að hann er þjóðhagur á flest bókmenntaform. Hann hefur frumsamið og þýtt, laust mál og bundið, notað gamlan efnivið og nýjan. Og allt þetta leikur í höndunum á honum.“

Orðið hrútskýring var valið Orð ársins 2016. Orðið er þýðing á enska hugtakinu mansplaining og komst í hámæli á liðnu ári þegar væntanlegur forsetaframbjóðandi var sakaður um athæfið sem orðið á við um; að karlmenn útskýri fyrir konum á yfirlætislegan og lítillækkandi hátt og gefi sér að þeir viti betur. En merkingin hefur víðari skírskotun og í raun geta allir - sem hafa einhvers konar forréttindastöðu gagnvart öðrum - hrútskýrt. Yfirburðirnir geta verið fólgnir í ímynduðu stigveldi hverskonar – í kynhneigð, kynþáttum, aldri eða öðru. En í rauninni þarf ekki að eiga sér stað bein útskýring – hrútskýringar geta birst sem framígrip, þegar einhver grípur orðið á lofti og finnur sig knúinn til að koma viti fyrir viðmælanda sinn eða jafnvel niðurlægja með ímyndaða yfirburði að vopni. Þess má geta að höfundur orðsins er Hallgrímur Helgason rithöfundur og myndlistarmaður.

Athugasemd: Í upphaflegu færslunni kom fram að Hallgrímur Helgason hafi stungið upp á orðinu hrútskýringu sem þýðingu á hinu enska mansplaining árið 2012. Hið rétta er að það var árið 2011 og leiðréttist hér með.

Alls voru veittir 46 styrkir úr Tónskáldasjóði Ríkisútvarpsins en þá hlutu eftirfarandi:

Alexandra Chernyshova
Anna Þorvaldsdóttir
Atli Ingólfsson
Áki Ásgeirsson
Áskell Másson
Bára Grímsdóttir
Bergrún Snæbjörnsdóttir
Bjarni Frímann Bjarnason
Finnur Karlsson
Gísli Galdur Þorgeirsson
Guðmundur Pétursson
Gunnar Karel Másson
Gunnsteinn Ólafsson
Hafdís Bjarnadóttir
Haukur Þór Harðarson
Hildigunnur Rúnarsdóttir
Hildur Guðnadóttir
Hjálmar H. Ragnarsson
Hlynur A. Vilmarsson
Hreiðar Ingi Þorsteinsson
Ingibjörg Ýr Skarphéðinsdóttir
Jesper Pedersen
John Speight
Kolbeinn Bjarnason
Kristín Þóra Haraldsdóttir
Kvennakórinn Stöllurnar
Laila M.A.
Lydía Grétarsdóttir
María Huld Markan
Michael Jón Clarke
Oliver Kentish
Ólafur Arnalds
Ólafur Björn Ólafsson
Ólafur Ó. Axelsson
Páll Ivan Pálsson
Ríkharður H. Friðriksson
Schola Cantorum 
Sigurður Sævarsson
Úlfar Ingi Haraldsson
Úlfur Eldjárn
Valdimar Jónsson
Vignir Snær Vigfússon
Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson
Þórður Magnússon
Þuríður Jónsdóttir
Örnólfur Eldon Þórsson 

Menningarsjóðir á vegum RÚV hafa verið starfræktir í fjölda ára, þeir elstu í meira en 60 ár. Markmiðið með þeim er að  efla menningarlífið  í landinu með fjárframlögum til listamanna.