Meniga fjármagnað fyrir 800 milljónir

25.06.2013 - 08:53
Mynd með færslu
Hugbúnaðarfyrirtækið Meniga hefur lokið við tæplega 800 milljón króna fjármögnun. Fjármögnunin var leidd af fjárfestingafélaginu Kjölfestu sem kemur nýtt inn í hluthafahóp Meniga. Auk þess tekur Frumtak, sem verið hefur hluthafi frá árinu 2010, þátt í fjármögnuninni og bætir við hlut sinn.

Meniga framleiðir heimilisfjármálahugbúnað fyrir banka og fjármálastofnanir sem þeir nota í næstu kynslóð netbanka til að stórbæta þjónustu við viðskiptavini sína. Hugbúnaður félagsins er nú þegar í notkun hjá sex bönkum í fimm löndum. Að auki vinnur Meniga að innleiðingu hugbúnaðarins hjá sex samstarfsaðilum til viðbótar í sjö löndum. Hjá Meniga starfa nú 45 manns í Reykjavík og Stokkhólmi. Meniga hefur hlotið ýmis alþjóðleg verðlaun fyrir nýsköpun, meðal annars  fyrir bestu tæknilausnina árin 2011 og 2013 á Finovate Europe, sem er ein þekktasta og virtasta ráðstefnan um tækninýjungar í banka- og fjármálaþjónustu. 

Meniga skilaði hagnaði á síðasta ári en tilgangur fjármögnunarinnar er að styðja við áframhaldandi hraðan vöxt og stórefla bæði vöruþróun og markaðsstarf félagsins. Mikil þróun á sér nú stað í þeirri þjónustu sem fjármálastofnanir veita viðskiptavinum sínum í gegnum netið og snjallsíma. Hugbúnaður, á borð við þann sem Meniga framleiðir, er einn af hornsteinum næstu kynslóðar netbanka. Meniga er því í góðri aðstöðu til þess að nýta gríðarlega stórt tækifæri á alþjóðlegum markaði. Félagið mun meðal annars beina auknum kröftum í þróun lausna sem gera bönkum kleift að hjálpa viðskiptavinum sínum að lækka kostnað og verða upplýstari neytendur, t.d. með því að bjóða þeim að nýta færslusögu sína til þess að fá sérsniðin tilboð í vörur og þjónustu. 

Georg Lúðvíksson, framkvæmdastjóri Meniga, vonast til að sjá algjöra byltingu á næstu árum í því hvernig fólk nálgast og nýtir sér fjárhagsupplýsingar. Í stað hrárra upplýsinga um stöðu á reikningum og yfirlit um eyðslu muni fólk í auknum mæli gera kröfu um að sjá heildstæða mynd af fjármálum sínum og fjárhagslegri heilsu sinni, án þess að standa í mikilli handavinnu sjálft.