Meistararnir mæta Snæfelli

13.02.2016 - 08:00
Grindavík og Snæfell leika til úrslita um bikarmeistaratitil kvenna í körfubolta í Laugardalshöll í dag. Grindavík er ríkjandi bikarmeistari eftir að hafa unnið Keflavík í úrslitaleiknum í fyrra. Þetta var annar bikarmeistaratitill Grindavíkurkvenna. Snæfell hefur aldrei unnið bikarinn og tapað báðum bikarúrslitaleikjum sínum til þessa.

„Okkur vantar þennan titil heim í Stykkishólm. Það þrá það allir að spila í Höllinni fyrir fullu húsi af fólki.“ segir Gunnhildur Gunnarsdóttir, fyrirliði Snæfells.

Daníel Guðni Guðmundsson sem er 29 ára tók við þjálfun Grindavíkurliðsins síðastliðið sumar af Sverri Þór Sverrissyni. Daníel fagnaði bikarmeistaratitli fyrir tveimur árum sem leikmaður karlaliðs Grindavíkur og sú reynsla er dýrmæt í þjálfarastarfi hans hjá kvennaliðinu.

Nánar um þetta í meðfylgjandi innslagi sem sjá má í spilaranum hér að ofan.

Bikarúrslitaleikur Snæfells og Grindavíkur hefst klukkan 14:00 en bein útsending RÚV hefst klukkan 13:45.

Mynd með færslu
Hans Steinar Bjarnason
íþróttafréttamaður