Meirihlutinn féll í Slóvakíu

06.03.2016 - 03:39
epa05190276 Slovak Prime Minister Robert Fico (C) leaves after a visit to the border line between Greece and Macedonia near Gevgelija, The Former Yugoslav Republic of Macedonia, 02 March 2016. The chaotic scenes at Greece's border with Macedonia,
Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu.  Mynd: EPA
Vinstri flokkur forsætisráðherrans Robert Fico er sigurvegari þingkosninganna í Slóvakíu í gær ef marka má útgönguspár. Flokkur hans missir þó meirihlutann á þingi. Fjöldi lítilla flokka fékk þingsæti að sögn AFP fréttastofunnar.

Flokkur Fico, Smer-Sósíal demókratar, hlaut rúmlega 27 prósent atkvæða eða 45 þingsæti af þeim 150 sem eru í boði. Frjálslyndi flokkurinn SaS varð næstur með rúm 13 prósent og íhaldsflokkurinn OLANO-NOVA þriðji með 11,2 prósent.

Smer var með 83 þingsæti fyrir kosningarnar og meirihluta á þingi. Flokkurinn gerir mikið út á andstöðu við flóttamenn og hefur AFP fréttastofan eftir Abel Ravasz, stjórnmálasérfræðingi, að það hafi komið þeim um koll að leggja of mikla áherslu á þau málefni í kosningabaráttunni. Kjósendur hafi haft meiri áhuga á þeim flokkum sem börðust fyrir betri kjörum starfsmanna á opinberum markaði. Kennarar og heilbrigðisstarfsmenn eru óánægðir með kjör sín miðað við kjör starfsmanna á almennum markaði.

23 flokkar buðu sig fram til slóvakíska þingsins. Níu náðu inn mönnum.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV