Meirihluti á móti áfengisfrumvarpi

18.05.2017 - 15:33
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink  -  Ruv.is
Mikill meirihluti landsmanna er andvígur frumvarpi um sölu áfengis í matvöruverslunum. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun vann fyrir Rúnar Vilhjálmsson, prófessor á heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. 

Rúnar óskaði eftir því að Félagsvísindastofnun ynni könnunina og BSRB studdi gagnasöfnunina. Könnunin er hluti af netkönnun Félagsvísindastofnunar. Hún náði til 1733 18 ára og eldri á landinu öllu. Fólkið var valið af handahófi úr þjóðskrá. Spurt er um ýmis samfélagsleg málefni í könnuninni og var ein af spurningunum um viðhorf almennings til frumvarps um sölu áfengis í verslunum. Svarhlutfall var 65%.

Rúnar segir að helstu niðurstöður séu að mikill meirihluti landsmanna sé andvígur frumvarpinu. „Það er tæplega 70 % landsmanna sem er andvígur frumvarpinu og það er athyglisvert líka að í öllum samfélagshópum sem við skoðuðum þá er meiri hluti gegn frumvarpinu.“ 

 

Andstaðan við frumvarpið er meiri á landsbyggðinni, þar sem 74 prósent voru á móti en 66,5 prósent á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöðurnar voru einnig greindar eftir stuðningi fólks við stjórnmálaflokka á Alþingi. 
 
„Stuðningurinn er minnstur og andstaðan mest í Framsóknarflokknum, meðal stuðningsmanna Samfylkingar og stuðningsmanna Vinstri grænna en í öllum flokkum er meirihluti andsnúinn frumvarpinu.“ 

Ef greint er eftir aldurshópum er minnst andstaða við frumvarpið í yngstu hópunum. Í flokki 18 - 29 ára eru 46,3 prósent mótfallin en 53,7 prósent fylgjandi en munurinn er ekki tölfræðilega marktækur. 
 
„Það er alla vega varðandi aldurinn þannig að með auknum aldri þá eykst andstaðan það er alla vega það sem við getum sagt þarna út frá þessum niðurstöðum
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV