Meira hrun úr Ketubjörgum

09.02.2016 - 17:05
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hrunið hefur úr bjargbrúninni í Ketubjörgum í vetur. Mikil sprunga hefur myndast í bjarginu og var girt fyrir aðgang að bjargbrúninni í fyrra til að koma í veg fyrir að ferðamenn færu sér að voða. Ingólfur Sveinsson, bóndi á bænum Lágmúla, segir að hrunið hafi úr bjargbrúninni á stað þar sem ferðamenn hafa hlaðið vörður. Hann telur að þar hafi þó nokkuð hrunið úr bjarginu. Að auki hafi sprungan í bjarginu gliðnað. Síðastliðið vor var sprungan orðin 70 til 80 sentímetra breið.

Stóra stykkið sem skagar út frá bjargbrúninni hangir þó enn uppi. Ingólfur á von á að það hrynji í sjó fram.

Lögreglan á Norðurlandi vestra fylgdist með bjargbrúninni í fyrra vegna hættunnar sem þar var talin á ferðum. Þrátt fyrir að bjargbrúnin hafi verið girt af stöðvaði það ekki alla þar sem margir ferðamenn fóru inn fyrir böndin sem strekkt höfðu verið til að afmarka hættusvæði.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV