Meira en 21 milljón hjálpar þurfi

17.02.2016 - 08:17
epa04879858 UN Humanitarian Chief, Stephen O?Brien, speaks to reporters during a press conference in Sana?a, Yemen, 11 August 2015. According to local reports O?Brien is visiting Yemen to gauge the catastrophic humanitarian impact of the conflict in the
Stephen O´Brien.  Mynd: EPA
Meira en 21 milljón manna í Jemen er hjálpar þurfi og að minnsta kosti 7,6 milljónir manna búa við alvarlegan matarskort. Þetta sagði Stephen O'Brien, yfirmaður hjálparstarfs á vegum Sameinuðu þjóðanna, á fundi í Öryggisráði samtakanna í gærkvöld.

O´Brien sagði að meira en 6.000 manns hefðu fallið í Jemen síðan Sádi-Arabar og bandamenn þeirra hófu loftárásir á uppreisnarmenn fyrir tæpu ári, þar af meira en 700 börn.

Hann sagði að illa hefði gengið að fá stríðandi fylkingar til að leyfa flutninga á hjálpargögnum til nauðstaddra og stofnanir Sameinuðu þjóðanna í Jemen og aðrar hjálparstofnanir ættu erfitt með að athafna sig vegna bardaganna í landinu.

Til dæmis hafi orrustuþotur Sádi-Araba og bandamanna þeirra varpað sprengjum skammt frá bústað starfsmanna Sameinuðu þjóðanna í landinu á sunnudag. O´Brien hvatti ráðið til að beita sér fyrir því að hjálparstofnanir gætu sinnt skyldu sinni í Jemen og þeim sem þyrftu á aðstoð að halda.