Meðferð á trans börnum lofar góðu

22.01.2016 - 16:36
Karlmannsfætur með naglalakk í kvenmannsfötum
 Mynd: Ryan McGuire  -  Gratisography
Fyrstu niðurstöður sýna að trans (transgender) börnum, sem fengið hafa lyf til að hægja á kynþroska, hefur vegnað vel. Þetta segir sálfræðingur frá Hollandi sem talaði í gær á Læknadögum í Hörpu. Meðferðin hefur verið umdeild.

Thomas Steensma er sálfræðingur við VU University Medical Center í Amsterdam. Á læknadögum í gær lýsti hann því hvernig Hollendingar taka á móti transfólki og hvaða ráðgjöf og meðferð það fær. 

Hann segir að transfólki, sem leitar aðstoðar, hafi fjölgað mikið á síðustu tveimur árum og ekki síst börnum og unglingum.

„Ein skýringin getur verið athygli fjölmiðla, fjöldi göngudeilda er meiri og svo internetið. Einnig er meiri sátt um trans og kynáttunarvanda og allt þetta virðist hafa orðið til þess að fleira fólk leitar til göngudeildanna."

Börn undir 12 ára og unglingar.

Börnum undir 12 ára sem segja að þau séu í röngum líkama hefur fjölgað verulega. Í fyrra komu meira en tvöfalt fleiri á göngudeildir í Hollandi en fyrir tveimur árum.

Undanfarin þrjátíu ár eða frá árinu 1988 hafa fleiri en 500 börn undir 12 ára aldri komið á trans göngudeildir í Hollandi og milli 500 og 600 börn á aldrinum 12-18 ára.

„Til dæmis komu 40 börn og unglingar árið 2010 en í fyrra yfir hundrað, eða meira en tvöfalt fleiri."

Steensma segir að gera verði skýran greinarmun á börnum fyrir kynþroskaaldur áður en þau verða 12 ára og þeim sem komin eru á unglingaskeið. Um áttatíu prósent barna undir 12 ára aldri sem eiga við kynáttunarvanda að stríða komist yfir hann. Þau séu enn að þroskast og reyna að átta sig á því hver þau eru.

„Mörg þeirra sem koma ekki aftur á göngudeildina reynast samkynhneigð eða tvíkynhneigð og sættast við líkama sinn. Þau þurfa ekki aðstoð lækna."

Reynsla komin á meðferð fyrir fullorðna en ekki fyrir börn.

Steensma segir að komin sé góð reynsla af meðferð fyrir fullorðna, til séu mjög góðar leiðbeiningar um rannsóknir og aðgerðir fyrir þá.
Börn séu hins vegar enn þá að takast á við kynvitund sína og ekki sé hægt að grípa inn í fyrr en þau eru 18 ára.

„Þess vegna þróuðum við aðferð og reglur fyrir börn á aldrinum 15 til 17 ára þar sem við gáfum þeim hormón og síðan meðferð til að hægja á kynþroska yngri barnanna."“

Þannig sé hægt að vinna tíma til að greina vandann og kanna hvort barnið sé í raun í vandræðum með kynvitund sína. Ef svo reynist  geta þau byrjað meðferð þegar þau eru 16 ára, segir Steensma.

Hægt á kynþroska barna

Meðferðin var umdeild þegar hún var tekin upp og var mikið rætt um hvort kynvitund sé mótuð við unglingaaldur. Einnig var rætt um rétt manna til að ráðskast með sköpunarverkið. Steensma segir að taka eigi þessa umræðu alvarlega. En líka verði að hafa í huga hina hliðina á málinu, sem sé dökk.

„Þau ungmenni sem koma á göngudeildina eru oft í sjálfsmorðshugleiðingum og mörg þeirra gera tilraun til að svipta sig lífi. Því urðum við að finna lausn til að minnsta kosti létta þeim baráttuna. Það góða við það að hægja á kynþroska þeirra er að það er ekki varanlegt. Ef meðferðinni er hætt þá halda þau áfram að þroskast.“

Fyrstu niðurstöður lofa góðu.
Fylgst hefur verið vel með þeim börnum og unglingum sem fyrst fóru í þessa meðferð. Fyrir tveimur árum, árið 2014, var birt grein um árangur meðferðarinnar og líðan þeirra sem fyrstir fóru í gegnum allt ferlið.

Árangurinn lofar góður, í það minnsta út frá sálfræðilegu sjónarhorni, segir Steensmaa. Þó þurfi að fara varlega í alhæfingar því þetta séu einungis fyrstu niðurstöður.

"Þau börn og unglingar sem ekki þurfa að líða fyrir kynáttunarvanda sinn virðast falla vel í hóp jafnaldra sinna og taka þátt á sama hátt og þeir sem ekki hafa átt við kynáttunarvanda. Því er þetta góður árangur út frá sjónarmiði sálfræðinnar en mikilvægt er að fara varlega í að alhæfa því þetta eru fyrstu niðurstöður en þær lofa góðu."