Með handjárn í fermingarfræðslu

04.03.2016 - 16:05
Rithöfundurinn Einar Kárason og góðvinur hans, Óli, beittu óhefðbundnum meðulum þegar presturinn sem þeir gengu til fermingar hjá hugðist stía þeim í sundur til að koma ró á krakkaskarann í fermingarfræðslunni.

„Séra Jón Þorvarðarson var góður gamall prestur en náði ekkert sérlega vel til krakka og hafði engan aga á hlutunum,“ segir Einar. Vinur hans Einars þótti mikill töffari. Þeir sátu alltaf saman, stríddu stelpum og fólki í kring, sem varð til þess þess að presturinn tók á það ráð að láta þá sitja sitthvorum megin við ganginn.  

„Við kunnum ráð við þessu,“ segir Einar. „Pabbi hans Óla var ævintýramaður og átti meðal annars handjárn. Alvöru handjárn, með lykli ... Næst þegar við vorum að labba til prestsins, kom ég við hjá Óla, og við handjárnuðum okkur saman — og skildum lykilinn eftir heima.“

Prestinum þótti uppátækið nú hálfleiðinlegt. „Ég held að allur tíminn hafi farið í það að hann var að reyna að opna þessi lögregluhandjárn með teskeið.“

Í fullorðinna manna tölu

Þau Einar Kárason og Gerður Kristný rifjuðu um fermingarundirbúninginn og fermingardaginn í Mannlega þættinum á Rás 1.  Tilefnið er sérstök fermingarsýning í Borgarbókasafninu, Menningarhúsi Kringlunnar, sem ber heitið: Í fullorðinna manna tölu.

Gerður Kristný á góðar minningar frá sínum fermingarundirbúningi og hafði einlægan áhuga á þeim fróðleik sem séra Halldór Gröndal miðlaði til sinna fermingarbarna.  Í tilefni sýningarinnar fór Gerður heim til foreldra sinna til að grafa upp fermingarmyndina sem hún hefur ekki viljað flagga hingað til. 

Gerður segist hafa hreinlega örvænt þegar hún var beðin um að draga myndina fram fyrir sýninguna.  „Mig langaði til að segja nei. Vegna þess að vitaskuld í hafði ég þá minningu að ég væri svo ljót á henni.“

Mynd með færslu
 Mynd: Gerður Kristný

Hún segist vera orðin sátt við hana núna. „Heyrðu! Ég er bara ekkert svo ljót. Í minningunni var þetta svo hroðalegt.“

Mynd með færslu
Guðrún Gunnarsdóttir
dagskrárgerðarmaður
Mannlegi þátturinn
Þessi þáttur er í hlaðvarpi