Matvælastofnun skaðabótaskyld í nautabökumáli

03.06.2016 - 13:57
Gæðakokkar Nautabökur
 Mynd: RÚV
Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu í gær að Matvælastofnun væri skaðabótaskyld vegna fréttar sem birtist á vef stofnunarinnar um að ekkert nautakjöt væri í nautabökum frá matvinnslufyrirtækinu Gæðakokkum. Dómurinn telur að tilkynningin hafi gefið til kynna að málið væri mun alvarlegra en tilefni var til og hafi verið til þess fallin að hafa alvarleg áhrif á rekstur Gæðakokka. Ekki hafi verið gætt meðalhófs.

Héraðsdómur Vesturlands sýknaði í byrjun síðasta árs fyrirtækið Kræsingar, sem áður hét Gæðakokkar, af ákæru um að hafa sett á markað nautabökur án þess að í þeim væri nokkurt nautakjöt. Dómurinn taldi að ekki hefði verið sýnt fram á að þetta hefði verið gert af ásetningi, rannsókninni hefði verið ábótavant og aðeins eitt sýni tekið. 

Fyrirtækið stefndi í framhaldinu Matvælastofnun vegna málsins. Niðurstaðan úr því máli fékkst í gær — Matvælastofnun er skaðabótaskyld. Málið vakti mikla athygli á sínum tíma en tilkynning stofnunarinnar kom um svipað leyti og upplýst var í Evrópu að fyrirtækið Findus hefði notað hrossakjöt í stað nautakjöts. 

Í dómi héraðsdóms kemur fram að margir aðilar sem höfðu átt í viðskiptum við fyrirtækið hefðu tekið vörur þess úr sölu og óskað eftir því að þær yrðu sóttar. Í tölvupóstum var vitnað í tilkynningu Matvælastofnunar — viðkomandi vildi ekki eiga frekari viðskipti við fyrirtækið vegna vörusvika. 

Í dóminum kemur enn fremur fram að fyrirtækið hafi neyðst til að segja upp starfsfólki, velta þess hafi hrunið og „ekki verið um annað að ræða en að skipta um nafn og byrja að nýju frá grunni.“

Matvælastofnun sendi frá sér yfirlýsingu vegna dómsins. Þar kemur fram að nú verði farið yfir hann og það metið hvort honum verði áfrýjað til Hæstaréttar.