Matur eldri borgara ódýrastur í Reykjavík

02.02.2016 - 06:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Matur sem býðst eldri borgurum, bæði í mötuneyti og heimsendur, er ódýrastur í Reykjavík af sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Heimsendir matarbakkar eru dýrastir í Kópavogi og Garðabæ og dýrasta staka máltíðin er í Mosfellsbæ.

Samkvæmt könnun Fréttablaðsins kostar matur í mötuneyti í Reykjavík 680 krónur í áskrift en stök máltíð 880 krónur. Til samanburðar kostar stök máltíð 1.010 krónur í Kópavogi hvort sem er í áskrift eða ekki. Þá kostar heimsendur matarbakki 880 kr í Reykjavík en 1.360 krónur í Kópavogi.

Nokkuð hefur verið fjallað um mat eldri borgara í Reykjavík undanfarnar vikur eða eftir að þeir mótmæltu að matarþjónusta um helgar yrði lögð af í Eirborgum í Grafarholti. Sögðu eldri borgarar félagslega þáttinn hvað mikilvægastan í því samhengi og buðust til að greiða aukalega fyrir hverja máltíð.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri ákvað fyrir skömmu að borða matinn sem býðst eldri borgurum sjálfur í viku og sagðist hæst ánægður með gæðin.