Mátti ekki hafa fleiri kýr en legubása

05.01.2016 - 15:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bóndi á Norðurlandi eystra mátti ekki hafa fleiri kýr í fjósi sínu en það var byggt fyrir þó hann segðist ætla að bæta úr aðstöðunni á næsta eina og hálfa árinu. Þetta er niðurstaða atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem úrskurðaði um kæru mannsins vega ákvörðunar Matvælastofnunar.

Bóndinn á fjós sem er með 92 legubása. Um nokkurra ára skeið voru þó fleiri en hundrað kýr í fjósinu. Matvælastofnun gerði ítrekað athugasemdir við þetta og veitti honum að lokum þriggja mánaða lokafrest síðasta vetur til að fækka kúnum. Bóndinn varð við þessari kröfu og fækkaði kúnum svo alltaf væri til reiðu legupláss fyrir hverja og eina kú í fjósinu, að því er fram kemur í frétt á vef Matvælastofnunar.

Málinu lauk þó ekki með því þar sem hann var þá búinn að óska eftir heimild til að hafa tíu prósentum fleiri kýr í fjósinu en sem nam básafjölda. Hann sagðist myndu vinna að úrbótum og taldi sig þurfa heimildina í sextán til tuttugu mánuði meðan á því stæði. Að auki krafðist hann bótagreiðslu frá Matvælastofnun vegna tekjutaps sem hann yrði fyrir við það að fækka kúnum.

Matvælastofnun synjaði þeirri beiðni og atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið tók undir þá ákvörðun. Niðurstaða ráðuneytisins að reglurnar hefðu lengi verið í gildi og því ekki um neina breytingu að ræða. Þess vegna verður hann sjálfur að bera tap sitt af málinu.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV