Mansalsmálið tengist átaki gegn lögbrotum

21.02.2016 - 18:15
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Lögbrotum á vinnumarkaði hefur fjölgað mjög hratt, segir forseti Alþýðusambandsins. Mansalsmálið í Vík í Mýrdal tengist átaki verkalýðsfélaganna gegn brotastarfseminni.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambandsins, segir að átakið hafi staðið í nokkrar vikur. „Og það kemur í ljós alveg ótrúlega mikið um lögbrot og þetta vonda mál sem kemur upp í Vík í Mýrdal er alveg í tengslum við það átak. Það verður ekki liðið að það sé bæði með þessum grófa hætti sem þarna er en líka bara almennt að það sé verið að hafa af bæði erlendum starfsmönnum og líka yngra fólki á vinnumarkaði, sem ekki þekkir vel til réttinda sinna, að það sé verið að nýta sér aðstöðu þeirra og þessu mun verkalýðshreyfingin fylgja eftir,“ segir Gylfi.

En hafa lögbrot á vinnumarkaði færst í vöxt? „Það er klárlega okkar tilfinning að þetta hefur á tiltölulega skömmum tíma blásið út sem aldrei fyrr og alveg ótrúlegt að það skuli gerast hér árið 2016 að atvinnurekendur misnoti sér aðstöðu sína með beinum hætti,“ segir Gylfi.