Mansal skipulagt af þaulreyndum mönnum

25.02.2016 - 08:13
Sönnunarbyrði í mansalsmálum er mikil, segir Kristjana Fenger, lögfræðingur Rauða krossins. Í mörgum tilvikum sé mansal skipulagt af þaulreyndum einstaklingum og fórnarlömbin kúguð til hlýðni.

Kristjana er fulltrúi í stýrihópi innanríkisráðuneytisins um framkvæmd aðgerðaráætlunar gegn mansali. Hún segir að aukin vitund hafi verið um mansal undanfarin ár en að auka þurfi fræðslu. Erfitt sé að uppræta mansal því tökin séu í flestum tilfellum dulin og undir yfirborðinu.  

Kristjana var á Morgunvaktinni á Rás 1 spurð út í það hversvegna fremur fáir dómar hafi fallið í mansalsmálum. „Það er rétt að sönnunarbyrðin í þessum málum er gríðarlega erfið. Þetta er mikið undir yfirborðinu og í mörgum tilvikum eru þetta þaulreyndir einstaklingar sem standa í þessu. Það er alltaf verið að þróa nýjar aðferðir, breyta og svo framvegis. Oft á tíðum eru fórnarlömbin ekki mjög viljug til samstarfs við að uppræta brotið. Það getur verið þannig að fórnarlambið er hrætt við refsingu mansalans sjálfs eða hreinlega yfirvalda í því landi sem viðkomandi er. Mansalinn hefur kannski neytt manneskju til að brjóta lög eða heldur henni í óvissu um sína eigin réttarstöðu. Oft er þetta ótti við brottvísun úr landi, fangelsun og líka hræðsla um líf og limi sína og fjölskyldumeðlima.“