Mannleg mistök sögð orsök lestarslyssins

10.02.2016 - 01:28
epa05150946 Rescue teams work at the site of a train accident near Bad Aibling, Germany, 09 February 2016. At least four people are dead and another 150 injured after two commuter trains collided head on near the southern German town of Bad Aibling,
 Mynd: EPA  -  DPA
Fyrstu rannsóknir á lestarslysinu í Bæjaralandi í morgun benda til þess að mannleg mistök hafi orðið til þess að lestarnar tvær skullu saman. Þýska fréttaveitan Deutsche Nachrichtenagentur, DPA, og blaðið Hannoversche Allgemeine Zeitung (HAZ) greina frá þessu og vísa til ónafngreindra en traustra heimilda. Samkvæmt þeim ákvað lestaumferðarstjóri á stjórnstöðinni í Bad Aibling að aftengja sjálfvirka viðvörunar- og ljósakerfið í stutta stund, til að hleypa í gegn lest, sem var á eftir áætlun.

Mun viðkomandi hafa gert ráð fyrir að sú lest næði í tæka tíð inn á stuttan, tvöfaldan brautarkafla, þar sem lestar úr gagnstæðri átt geta mæst hvor á sínu sporinu. Sú varð þó ekki raunin, og lestin sem kom úr hinni áttinni fékk aldrei merki um að von væri á lest á móti. Því fór hún ekki inn á hliðarsporið til að bíða, heldur ók áfram aðalsporið á grænu ljósi.

Þar sem ljósakerfið var aftengt kviknaði hvergi rautt ljós, eins og á að gerast í svona tilfellum. Því fór sjálfvirkur segulhemlunarbúnaður á járnbrautarteinunum, sem hannaður er til að stöðvar lestar sjálfkrafa ef þeim er ekið gegn rauðu ljósi, heldur ekki í gang.

Sá búnaður hefur aldrei áður brugðist og séu heimildir dpa og HAZ jafn traustar og þær fullyrða, hefur hann heldur ekki brugðist nú. Lögregla hefur þó neitað að staðfesta þetta enn sem komið er og segir rannsókn enn á frumstigi. Meðal annars á eftir að finna og lesa úr svörtu kössunum, búnaði ekki ósvipuðum flugritum, en þrír slíkir eru í hvorri lest.

Tíu létust í slysinu, eins er enn saknað, átján slösuðust alvarlega og tugir slösuðust minna.