Máni og Prestur heimsmeistarar í fimmgangi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Máni Hilmarsson og Prestur frá Borgarnesi eru nýkrýndir heimsmeistarar í fimmgangi í ungmennaflokki. Þeir sigruðu með glæsibrag í urslitum í fimmgangi á Heimsmeistaramóti Íslenska hestsins í Hollandi.

Fyrir skeiðið var Máni í þriðja sæti og töluvert langt í efsta sætið en magnaðir skeiðsprettir tryggðu honum og Presti heimsmeistaratitilinn. Þeir fengu 6,79 í heildareinkunn en hvorki meira né minna en 8.17 fyrir skeið. Í öðru sæti varð Sasha Sommer frá Danmörku á Komma fra Enighed með 6.41 í einkunn. OG í þriðja sæit Elsa Teverud frá Svíþjóð á Blíðu frá Ríp með 6,17.

„Þetta var frábært. Ég man ekki einu sinni hvað ég hugsaði þegar ég reið inn á völlinn. Þetta var æðislegt og hesturinn frábær, eins og hann er reyndar alltaf,“ sagði Máni.

Þetta er þriðji heimsmeistaratitillinn í ungmennaflokki sem íslenska liðið landar á þessu móti en í fyrrakvöld varð Konráð Valur Sveinsson heimsmeistari í gæðingaskeið og fyrr í dag sigraði Gústaf Ásgeir Hinriksson í fjórgangi .