Mánasteinn - ritdómur

Bókmenntagagnrýni
 · 
Bókmenntir
 · 
Bókmenntir og fræði
 · 
Gagnrýni
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Mynd með færslu

Mánasteinn - ritdómur

Bókmenntagagnrýni
 · 
Bókmenntir
 · 
Bókmenntir og fræði
 · 
Gagnrýni
 · 
Menningarefni
 · 
Víðsjá
Ásdís Sigmundsdóttir flutti gagnrýni um skáldsöguna Mánasteinn - Drengurinn sem aldrei var til í Víðsjá fimmtudaginn 31. október.

Mánasteinn, drengurinn sem aldrei var til er nýútkomin bók eftir Sjón. Bókin er stutt skáldsaga og fjallar um Mána Stein Karlsson 16 ára samkynhneigðan pilt í Reykjavík árið 1918. Bókin lýsir örlagaríkum dögum í lífi hans á meðan náttúruhamfarir, styrjöld og farsótt geisa og fullveldi Íslands er fagnað. Þessa stórviðburði sjá lesendur frá sjónarhóli drengs, sem er áhorfandi frekar en þátttakandi, en þeir tengjast samt lífi hans og örlögum í flóknum skáldlegum vef.

Þrátt fyrir að drengurinn Máni Steinn sé samkynhneigður þá er þetta ekki bók um samkynhneigð í sjálfu sér heldur er kynhneigð hans mikilvægt frásaganartæki og drifafl atburða. Hún er ein af ástæðunum fyrir stöðu drengsins í samfélaginu og afstöðu hans sjálfs til þess. Hann er utangarðs, önnur börn hafa sniðgengið hann og hann heldur sér fjarri til þess að gefa öðrum ekki tækifæri á að hafna sér. Hann horfir á lífið eins og kvikmynd enda hafa kvikmyndir gefið honum leið til að átta sig á manneskjunum og lífinu almennt. Að vissu leyti lifir hann í gegnum kvikmyndirnar og hann sér heiminn í gegnum þá linsu sem þær hafa veitt honum. Staða hans sem ungs samkynhneigðs drengs sem þjónustar eldri kóna fyrir greiðslu, skapar á hinn bóginn tengsl við karlmenn á ýmsum stöðum í samfélaginu sem hann hefði ekki að öðrum kosti - tengir hann við aðrar manneskjur. Tengslin eru kannski ekki djúp, en veita honum þó eitthvað sem hann hefði ekki annars haft sem fátækur, óskilgetin og munaðarlaus drengur sem á við námsörðugleika að stríða. Því drengurinn er jaðarsettur af mun fleiri þáttum en samkynhneigð sinni. Í þriðja lagi má segja að samkynhneigðin og það að hún gerir það að verkum að samfélagið á Íslandi í byrjun 20. aldar hafnar honum, verði til þess að hann fær notið hæfileika sinna og kemst undan öllum þessum hindrunum. Hann kemst burt, stækkar sjóndeildarhringinn og öðlast stað í lífinu á meðan hið nýja fullvalda Ísland hefur ekkert að bjóða honum - hann passar ekki inn í þá mynd sem þar skal draga. Það er svo að auki áhugavert, í ljósi skáldaferils Sjóns, að framúrstefnan, skrítnar hugmyndir frá útlöndum sem góðborgarar fyrr og nú hafa litið á sem úrkynjun, gefur drengnum tækifæri til að koma aftur til Íslands. Sú endurkoma varir þó ekki lengi því í henni rennur hann inn í skáldaðan raunveruleika sem tengir saman raunveruleika þess að skapa skáldskap og að vera skáldskapur.

Máni Steinn er jú í raun og veru drengur sem aldrei var til, hann er skáldskapur. Ekki einungis er hann persóna í bók heldur rennur hann líka saman við skáldskapinn í bókinni þegar hann verður að „Billy“ í ljóði nafnlauss útlendings. Sóla Guðb, stúlkan sem Máni Steinn dáir, er einnig skáldskapur í margháttuðum skilningi. Hún rennur saman við kvikmyndastjörnuna úr uppáhaldskvikmynd hans en hún er líka „Fröken Reykjavík“ og tákn fyrir kraft jarðar. Fyrsta lýsingin á henni ber þetta með sér: „Hún birtist á klettabrúninni líkt og gyðja risin úr dýpstu hafdjúpum, ber við logandi himin litaðan af jarðeldunum í Kötlu, stúlka engum öðrum lík, klædd svörtum leðursamfestingi sem dregur fram allt sem honum er ætlað að hylja“ (bls. 12) Vísunin í ljóð Tómasar Guðmundsonar fellur þarna inn í lýsingu á uppsprettu stúlkunnar í hafinu og eldum jarðar sem rennur svo saman við kvikmyndapersónuna Musidora. Þessi marglaga meta-texti gefur skáldsögunni aukna dýpt og skírskotanir og vekur upp spurningar um eðli skáldskapar og sköpunar sem koma sem bónus með sögu Mána Steins sem er áhugaverð og áhrifarík í sjálfu sér.

Eitt af því besta við þessa bók er að þrátt fyrir allt er Máni Steinn Karlsson ekki fórnarlamb. Hann býr yfir styrk sem virðist spretta af því hvernig hann horfir á lífið; einmitt það að hann horfir á annað fólk utanfrá og skilur það veitir honum fjarlægð og styrk. Hann er það sem Garibaldi læknir hræðist, ekki bara vegna kynhneigðar sinnar heldur vegna þess að hann leyfir sér að horfa á fólk, að virða það fyrir sér og lesa það eins og persónur í bíómynd. Að þessu leyti má segja að hann sé eins og rithöfundur sem túlkar veruleikan í gegnum síu skáldskaparins. Tengingin við kvikmyndir hefur áhrif á alla atburðarás og framsetningu sögunnar. Þegar drengurinn veikist er óráð hans uppfullt af kvikmyndalegum vísunum og sjónarhornum og stíllinn líkir eftir kvikmyndum með stuttum senum og löngum, nærmyndum og víðum skotum, samtali sem sett er upp eins og handrit o.s.frv. Einnig má benda á að þegar spænska veikin nær hámarki og bærinn fer að líkjast gróteskri hryllingsmynd fer Máni Steinn loksins að kannast við sig: „Reykjavík hefur í fyrsta sinn tekið á sig mynd sem speglar innra líf hans“ eins og segir í sögunni(bls. 85). Hann verður loksins þátttakandi í lífinu í Reykjavík þegar það er orðið að hryllingsmynd, gengur inn í hverja senuna á fætur annarri, og þegar farsóttin er að líða undir lok og ákveðið er að sótthreinsa kvikmyndahúsið verða Máni Steinn og Sóla eins og persónurnar í hasarmyndunum sem hann dáir.

Eitt af því sem Sjón gerir vel er að láta mismunandi skilningarvit, heyrn, lykt og sjón, vinna saman til að skapa andrúmsloft. Vélarhljóð mótorhjóls í kynlífssenu í upphafi bókarinnar eru gott dæmi um það hvernig hljóð og hljóðleysi eru notuð í bókinni. Þegar spænska veikin hefur náð að sigra lífið þá birtist það í því að þöglu kvikmyndirnar verða raunverulega þöglar vegna þess að tónlistin er farin. Veikindin taka lífið bæði úr bænum, hinum skáldaða raunveruleika, og kvikmyndunum þegar allir hljóðfæraleikarar í bænum eru orðnir veikir. Drengurinn, læknirinn og Sóla ferðast um hinn deyjandi heim og vitja hinna sjúku í orðlausri þögn.

Tengingarnar, vísanir og lög í bókinni eru svo mörg og margvísleg að það er ómögulegt að reyna að draga þau öll fram og líklegt að hægt sé að finna enn fleiri með endurteknum lestri. Stíllinn er úthugsaður og í samræmi við umfjöllunarefnið hverju sinni þannig að orðin vekja upp margvísleg hughrif. Þrátt fyrir að þetta sé stutt bók hefur textinn svo margt að geyma að hún iniheldur meira en margar lengri bækur. Þetta er bók sem hlustendur verða að lesa sjálfir, velta fyrir sér og rifja upp. Ég vona að fleiri svona vel slípaðir og margbrotnir steinar reki á fjörur mínar í væntanlegu jólabókaflóði.