Mál Ragnars og Gests fyrir Mannréttindadómstól

17.03.2016 - 06:34
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Mál Ragnars H. Hall og Gests Jónssonar gegn íslenska ríkinu verður tekið fyrir hjá Mannréttindadómstól Evrópu. Lögmennirnir tveir sögðu sig frá Al Thani-málinu svokallaða og voru báðir sektaðir um eina milljón fyrir vikið. „Við erum afskaplega sáttir við að þetta mál fái þá meðferð sem við teljum að sé eðlileg,“ segir Ragnar.

Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í morgun.  Ragnar og Gestur voru verjendur tveggja sakborninga í Al Thani-málinu. Þeir gagnrýndu að tíminn sem þeir fengju til að undirbúa málsvörn skjólstæðinga sinna fyrir réttarhöldin væri of naumur og að réttur skjólstæðinga þeirra til réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis við ákæruvaldið hefði ítrekað verið þverbrotinn.

Björn Þorvaldsson, saksóknari í málinu, fór fram á að lögmennirnir yrðu sektaðir fyrir að segja sig frá verjendastörfum en afsögn þeirra varð til þess að réttarhöldin frestuðust um meira en hálft ár. Björn sagði háttsemi þeirra með öllu ólíðandi og til þess fallinn að minna tiltrú almennings á dómskerfinu.

Héraðsdómur sektaði lögmennina tvo um eina milljón hvor en Hæstiréttur klofnaði í afstöðu sinni til þess hvort staðfesta ætti hana.  Tveir dómarar töldu að fella ætti sektina úr gildi - hún hefði verið ákveðin án þess að lögmönnunum hefði verið kynnt sakarefnið og án þess að þeim gæfist kostur á að koma að vörnum. Málsmeðferð í héraði væri því ábótavant.

Í Fréttablaðinu kemur einnig fram að Mannréttindadómstóllinn ætli einnig að taka fyrir mál Styrmis Þórs Bragasonar, fyrrverandi forstjóra MP Banka. Hann var dæmdur í ársfangelsi fyrir aðild sína að Exeter-málinu svokallaða. 

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot  -  RÚV
Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP Banka.