Mál hollenska parsins án hliðstæðu

15.02.2016 - 12:02
Mál hollenska parsins, sem er ákært fyrir að hafa komið með 209 þúsund mdma-töflur til landsins í húsbíl með Norrænu í byrjun september, er án hliðstæðu. Þetta sagði Kolbrún Benediktsdóttir, héraðssaksóknari, við munnlegan málflutning í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Hún krafðist þess að parið fengi hámarksrefsingu en taldi þó rétt að horfa til þess að maðurinn hefði játað sök og aðstoðað lögreglu við að hafa upp á skipuleggjendunum þótt það hefði ekki skilað neinum árangri.

Fíkniefnin voru falin í gaskútum, varadekki og 14 niðursuðudósum. Maðurinn hefur játað að hafa vitað af fíkniefnunum og sagst vera svokallað burðardýr. Konan hefur fullyrt við yfirheyrslur að hún hafi ekkert vitað. Maðurinn hefur sömuleiðis staðhæft að hún hafi ekkert vitað.

Kolbrún lagði mikla áherslu á það í ræðu sinni að maðurinn hefði verið missaga um hvernig hann hefði komið þessum fjórtán niðursuðudósum fyrir. Hún sagði enga aðra skynsamlega skýringu á því af hverju hann hefði komið með sex til sjö útskýringar á þessu nema bara til að firra konu sína ábyrgð. 

Kolbrún sagði það ekki halda vatni, með hliðsjón af því hvernig fíkniefnin voru falin, að konan hefði ekki vitað af efnunum.  Maðurinn hefði til að mynda þurft að fara inn í húsbílinn að aftan. 

Kolbrún rakti einnig vitnisburð dóttur konunnar og nágrannakonu sem fullyrtu báðar við lögreglu að konan hefði sagst vera á leiðinni til Spánar til að slaka á í sólinni.  Það hefði til að mynda komið dóttur konunnar í opna skjöldu að frétta af móður sinni á Íslandi.

Dóttirin breytti þeim framburði fyrir dómi en saksóknari bað dómarann að horfa til þess að þar væri vitni að reyna að bjarga mömmu sinni. Horfa ætti til skýrslutöku yfir dótturinni hjá lögreglu.

Saksóknari sagði að maður lygi ekki til um áfangastað nema maður hefði eitthvað óhreint mjöl í pokahorninu. Hún sagði rétt að sakfella þau bæði  til að mynda hefði komið fram að skipuleggjendurnir hefðu lagt áherslu að þau færu saman - það væri trúverðugra ef þau kæmu til landsins sem par.

Kolbrún sagði mál parsins án hliðstæðu - magn fíkniefnanna væri slíkt.  Dómurinn mætti taka tilit til þess að maðurinn hefði játað sök og reynt að aðstoða lögregluna við að hafa upp á skipuleggjendunum án þess að það hefði skilað árangri.

ATH: Í fréttinni var sagt að saksóknari hefði farið fram á níu ár. Saksóknari fór fram á hámarksrefsingu en nefndi enga tölu.