Mál barna á að meta sjálfstætt

14.09.2017 - 11:13
Umboðsmaður barna hefur lengi haft áhyggjur af stöðu barna meðal hælisleitenda. Salvör Nordal segir alveg skýrt samkvæmt barnasáttmála SÞ að taka eigi tillit til skoðana og afstöðu barnanna sjálfra og meta hver líðan þeirra er. „Það á að heyra í börnunum og taka tillit til þeirra sjónarmiða.“ Þá sé skýrt í sáttmálanum að börn hafi sjálf sinn rétt. „Það á að meta þeirra mál sjálfstætt.“ Í þessum orðum er mikill þungi.

Þessa dagana er fátt meira rætt en mál stúlknanna Haniye og Mary sem vísa á úr landi og til skoðunar er hvaða breytingar þurfi að gera á lögum og stjórnsýslu í málum barna í þeirra fótsporum.  Salvör Nordal tók við embætti Umboðsmanns barna í sumar og var í upphafi viðtals á Morgunvaktinni fyrst leitað viðbragða hjá henni gagnvart þessu tiltekna máli. Hún segir að það sé tilfinning starfsmanna embættisins að gera megi betur í meðferð málefna flóttabarna sem hingað koma. Þau ætli að skoða þessi mál betur og meta stöðu barna hér út frá ákvæðum barnasáttmála SÞ. Hún segir að sér sýnist að allir séu sammála um að meðferð þessara mála taki of langan tíma. Því lengur sem fólk dvelji í landinu sé erfiðara að senda það í burtu – sérstaklega börn. Þá nefndi Salvör líka að skoða þyrfti aðbúnað barna við komu til landsins og ef þeim er vísað úr landi, sem geti verið mjög harkalegt, hvernig sé þá tekið á móti því á nýjum stað. Ábyrgð okkar sé mikil. Salvör Nordal segir ljóst að þrátt fyrir barnalög um fullgildingu barnasáttmálans getum við gert betur – og hlusta betur á börnin sjálf og huga að réttindum þeirra.

Á Morgunvaktinni ræddi Salvör Nordal verkefni sem hún vann að sem forstöðumaður Siðfræðistofnunar H.Í. og það var að undirbúa ráðstefnu um líknardráp. Hún verður haldin í Veröld, húsi Vigdísar, á morgun. Málefnið er viðkvæmt og flókið. Sérfræðingar fara yfir reynslu þeirra þjóða sem heimilað hafa líknardráp og lærdóm megi draga af því. Salvör Nordal segir að umræðan hér sé skammt komin og líknardráp verði ekki heimiluð hér fyrr en skapast hafi um þau samfélagsleg sátt. 

 

Mynd með færslu
Óðinn Jónsson
dagskrárgerðarmaður
Morgunvaktin
Þessi þáttur er í hlaðvarpi