Makwala-áskorunin orðin vinsæl

11.08.2017 - 08:26
epa06134067 Botswana's Isaac Makwala does push-ups after running a repeat of the men's 200m heats at the London 2017 IAAF World Championships in London, Britain, 09 August 2017. Following a protest by the Botswanan federation and a medical
 Mynd: EPA
Botswanamaðurinn Isaac Makwala vann kannski ekki til verðlauna í 200 m hlaupinu á HM í frjálsum íþróttum í gærkvöld. En hann er orðinn ein helsta stjarnan á HM í London. Myllumerkið #MakwalaChallenge eða Makwala-áskorunin er nú orðið eitt af því heitasta á samfélagsmiðlum úti í heimi.

Makwala sýktist af nóróveiru og var á mánudag settur í tveggja daga einangrun af þeim sökum. Hann missti því að undanrásum 200 m hlaupsins á HM á mánudagskvöld og svo af úrslitum 400 m hlaupsins á þriðjudagskvöld. Makwala var afar ósáttur við það að fá ekki að hlaupa úrslitahlaupið í 400 m hlaupinu, enda er það hans sterkasta grein. Hann taldi sig líka eiga góða möguleika á því að vinna til verðlauna í 400 m hlaupinu.

Makwala losnaði hins vegar úr sóttkví klukkan 14:00 á miðvikudag, og fékk þá grænt ljós frá Alþjóða frjálsíþróttasambandinu, IAAF til að hlaupa 200 m hlaup, einn á hlaupabrautinni fyrir keppni dagsins. Ef honum tækist að hlaupa á undir 20,53 sek., fengi hann að keppa í undanúrslitum 200 m hlaupsins síðar um kvöldið.

Makwala hljóp á 20,20 sek. einn á brautinni og um leið og hann kom í mark fagnaði hann með því að gera nokkrar armbeygjur, til að undirstrika það að hann væri við hestaheilsu. Armbeygjufagn Botswanamannsins og ekki síður skrautlegir stuðningshólkar sem Makwala hleypur með á hægri handlegg, hafa vakið mikla athygli. Því er Makwala-áskorunin nú orðin það nýjasta nýtt á samfélagsmiðlum.

Mynd með færslu
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson
íþróttafréttamaður