Magnús segir ásakanir rangar og tilhæfulausar

12.09.2017 - 17:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV/samsett mynd
Magnús Garðarsson, stofnandi og fyrrverandi forstjóri United Silicon, segir að ásakanir á hendur sér séu rangar og tilhæfulausar. Stjórn United Silicon hefur kært Magnús vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot og skjalafals. Hann á að hafa dregið sér rúman hálfan milljarð króna úr félaginu.

Magnús segir í tilkynningu sem hann sendi fjölmiðlum nú síðdegis að málið verði ekki rekið í fjölmiðlum, „og hef ég falið lögmanni að gæta hagsmuna minna vegna þeirra árása sem ég hef orðið fyrir,“ segir í tilkynningu. 

Arion banki, sem er orðinn langstærsti eigandi United Silicon, og lífeyrissjóðir íhuga að kæra Magnús vegna gruns um stórfelld auðgunarbrot. Arion banki fer nú með ráðandi hlut í félaginu, á 57 prósent en eignarhluturinn fer upp í 67 prósent ef allt er talið. Allur hlutur Magnúsar í félaginu hefur verið tekinn yfir. Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Festa og Eftirlaunasjóður atvinnuflugmanna eiga stærstan hluta þess sem eftir er. 

Tæpum hálftíma eftir að stutt yfirlýsing barst frá Magnúsi sendi hann fjölmiðlum aðra ítarlegri yfirlýsingu. Þar segir að ásakanir í sinn stað séu aðeins mjög skítugur slagur um eignarhald að United Silicon. Hann segir að Arion banki og hluthafar í hópi með bankanum hafi krafist þess að taka völdin í félaginu þegar hlutafé var aukið. Hann hafi samþykkt þetta og farið úr stjórn til að greiða fyrir úrbótum. Magnús segir í yfirlýsingunni að bankinn hafi ekki látið staðar numið þar heldur reynt að taka hlutabréf af einstaklingum sem hefðu verið búnir að fjárfesta í félaginu. „Nú í þessari viku hef ég verið kærður fyrir eitthvað meint brot, sem ég get ekki ímyndað mér hvað er, enda hef ég ekki heyrt neitt um málið fyrr en í gærkvöldi, og þá í gegnum fjölmiðla.“

Garðar sakar Arion banka um að beita einhverjum skítugustu brögðum sem hann hafi séð beitt í viðskiptaheiminum, til að koma sér í eins lélega stöðu og mögulegt sé.

Fréttin var uppfærð klukkan 17:37.