Mætti fjölga hjúkrunarfræðingum úr hópi karla

15.02.2016 - 11:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Nærri helmingur þeirra karla sem hefja nám í hjúkrun í Noregi, eða fjórir af hverjum tíu hverfa frá námi og margir þeirra hafa mætt fordómum. Níu prósent hjúkrunarfræðinga í Noregi eru karlar og þykir það lágt í Evrópu. Hér á landi eru þetta hlutfall ekki nema tvö prósent.

Samkvæmt frétt norska ríkisútvarpsins NRK er hlutfall karla í hjúkrun hæst á Ítalíu þar sem fjórðungur hjúkrunarfræðinga eru karlar. Kristian Imingen Skjellet, norskur hjúkrunarfræðinemi, sem lýkur námi í vor, segir að starfsnámið reynist mörgum erfitt og þar séu það ekki síst konur í stéttinni sem sýni körlum fordóma. Sjálfur hafi hann hitt þar fyrir starfssystur sem taldi að karlar í hjúkrun dygðu helst til að taka upp rusl og spúla. Ólafur G Skúlason,  formaður félags íslenskra hjúkrunarfræðinga segir að Íslendingar séu miklu verr settir en Norðmenn hvað hlutfall karlar í stéttinni varðar, hér eru bara tvö prósent hjúkrunarfræðinga karlar. 

Hann telur samt von til að þetta breytist og hefur orðið var við aukinn áhuga karlmanna á hjúkrunarstarfinu. 

Kannski hefur það líka áhrif að ég er formaður félagsins og er meira áberandi í umræðunni. Ég sjálfur valdi hjúkrun eftir að hafa séð að karlmaður gæti orðið hjúkrunarfræðingur. Ég hélt á sínum tíma að það væri ekki hægt. 

Háskólamaðurinn Runar Bakken, sem hefur kynnt sér jafnréttismál í hjúkrunarstétt, segir að karlarnir viti af því þegar þeir hefja nám að þeir séu í minnihluta. Það reynist þeim samt eriftt hve kvenlæg öll viðmið séu, ekki síst í kennslubókunum þar sem aldrei sé vikið að körlum í hjúkrun nema í samhengi við vandamál. Ólafur kannast ekki við að hafa mætt fordómum í náminu en vissulega hafi nær alltaf verið gert ráð fyrir að það væru bara konur í hópnum. 

Í Noregi er mikill skortur á hjúkrunarfræðingum. Talið er að eftir tuttugu ár vanti um þrjátíu þúsund hjúkrunarfræðinga þar í landi. Hér heima hefur endurnýjun í stéttinni ekki verið næg. Þar gæti fjölgun úr hópi karla hjálpað til, segir Ólafur.

50% vinnuaflsins eru karlmenn. Það er uppspretta sem vannýtt í hjúkrun og þess vegna er mikilvægt að gera karlmönnum grein fyrir því að þeir geti lært hjúkrun og hún sé alveg jafn fínt starf fyrir þá og konur. 
 

Anna Kristín Jónsdóttir
Fréttastofa RÚV