Mæla hávaða frá flugumferð

11.06.2017 - 16:20
Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock
Útlit er fyrir að það dragi úr hávaða frá flugvélum yfir Reykjanesbæ í sumar þegar ráðist verður í framkvæmdir við austur/vesturflugbrautina á Keflavíkurflugvelli. Íbúar hafa margir hverjir kvartað undan hávaða frá vaxandi flugumferð og eru mælingar hafnar á hávaðanum.

Fjallað var um hávaða frá flugumferð við Keflavíkurflugvöll á síðasta fundi bæjarráðs Reykjanesbæjar. Þar kom meðal annars fram að bæjarstjóri hefði ítrekað komið kvörtunum íbúa vegna hávaða á framfæri við Isavia, sem rekur flugvöllinn. Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, segir í samtali við fréttastofu að bærinn hafi beðið stjórnendur Isavia að haga flugumferð þannig að ónæði af völdum hennar yrði sem minnst. Það hafi þeir reynt að gera. 

Bæjarráð fékk þær upplýsingar frá Isavia að stefnt væri að lokun austur/vesturflugbrautarinnar í næstu viku. Sú lokun er tímabundin meðan unnið er að malbikun flugbrautarinnar. Þar með ætti að verða minna ónæði frá flugumferð og meiri ró í bænum yfir sumarmánuðina, segir Kjartan Már. Það er einmitt þegar þessi flugbraut er notuð sem flugvélarnar þurfa að fljúga yfir Njarðvík.

Fjórir mælar notaðir

Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Isavia, segir að mælingar séu hafnar á hljóðinu sem berst frá flugvélum á leið til og frá Keflavíkurflugvelli. Markmiðið er að komast að því hversu mikill hávaði er af mismunandi flugferlum. Þegar það er komið í ljós er hægt að grípa til aðgerða til að draga úr hávaðanum. Isavia hefur lagt til breytingar á flugferlum til að draga úr hávaða en flugfélög vildu frekari rannsóknir áður en gripið yrði til aðgerða til að betra væri að leggja mat á hugsanlegan afrakstur aðgerðanna.

Isavia er með fjóra mæla, þrjá fasta og einn sem hægt er að flytja milli staða eftir því sem ástæða þykir. Til stendur að birta niðurstöður mælinganna jafnóðum á vef sem er aðgengilegur öllum en forritun vefsins er ekki lokið.

Fleiri flugvélar á fjölbreyttari tímum

Íbúar Reykjanesbæjar verða meira varir við hávaða frá flugumferð um Keflavíkurflugvöll en áður, bæði vegna þess að mun fleiri flugvélar fara þar um en áður og vegna þess að brottfarir og lendingar dreifast meira en áður var. Þannig áttu menn því að venjast að flugumferðin væri mest á morgnana og síðdegis en í seinni tíð lenda flugvélar og taka á loft mest allan sólarhringinn. 

Það munu frekar vera nýrri íbúar í Reykjanesbæ sem kvarta undan hávaða en þeir sem hafa búið þar alla sína ævi. Þeir síðarnefndu ólust upp við það að heyra flugumferðina frá flugvellinum og hafa samanburðinn við þá tíð þegar Varnarliðið var enn til staðar á Keflavíkurflugvelli. Þotur þess voru mun háværari en þær þotur sem fara nú um flugvöllinn.
 

 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV